Miðvikudagur, 06. 09. 06.
Við hófum qi gong æfingar ársins í morgun kl. 08. 10 og sami trausti hópurinn hittist að nýju sér til styrkingar. Gunnar Eyjólfsson leiddi fyrsta tímann.
Tveir blaðamenn ræddu við mig um Schengen-ráðstefnuna, sem Evrópunefnd og Háskólinn á Bifröst efna til á föstudag. Ég er ekki viss um, að menn átti sig almennt á því, hve einstök þessi ráðstefna er, þegar við köllum sérfróða menn saman til að ræða þau álitaefni, sem eru á dagskrá hennar. Ræðumenn á ráðstefnunni verða háttsettir embættismenn og sérfræðingar frá ráðherraráði og framkvæmdastjórn ESB, m.a. Jean Claude Piris, yfirmaður lagasviðs ráðherraráðsins og Karel Kovanda, aðstoðarframkvæmdastjóri á sviði erlendra samskipta (DG RELEX) hjá framkvæmdastjórn ESB, sem er m.a. ábyrgur fyrir EES málum. Erna Solberg formaður norska íhaldsflokksins er í hópi ræðumanna og Fabrice Filliez, sem fer með Schengenmálefni í stjórnarráði Sviss, mun fjalla um þróun innanríkis- og dómsmálasamstarfs ESB og hugsanleg áhrif þeirrar þróunar á stöðu Sviss, Noregs og Íslands í Schengen samstarfinu. Ég fullyrði, að í sögu Schengensamstarfsins sé þetta fyrsta ráðstefnan af þessu tagi.
Þá hafði fréttamaður samband við mig vegna þess að nokkrar vikur mundu líða frá brottför þyrla varnarliðsins, þar til tvær leiguþyrlur koma til starfa hjá landhelgisgæslunni. Ég sagðist ekki sjá, að þetta væri fréttnæmt. Það hefði áður gerst á undanförnum árum, að þyrlur varnarliðsins væru ekki hér til taks og hjá gæslunni væru menn búnir undir þetta. Nú hefði hins vegar verið búið þannig um hnúta, að þyrlum til starfa að leit og björgun á vegum landhelgisgæslunnar mundi fjölga. Aldrei hefði verið rætt um það við mig, að Bandaríkjamenn myndu fresta brottför þyrla sinna af tilliti til okkar. Raunar hef ég ekki vænst þess í því ferli, sem hófst 15. mars 2006, að Bandaríkjamenn væru að hugsa um annað en sjálfa sig við framkvæmd brottfarar varnarliðsins.
Á meðan ég er að skrifa þetta, fylgist ég með Sky News, þar sem allt snýst um vandræðin hjá Tony Blair - en 7 aðstoðarráðherrar sögðu af sér í dag til að knýja á um afsögn hans. Þá er sagt, að það sé „melt down“ milli Blairs og Gordons Browns. Þessar pólitísku hamfarir minna aðeins á, að fyrir leiðtoga er ekki síður erfitt að hætta en ná völdum.