Þriðjudagur, 26. 09. 06.
Á fundi ríkisstjórnarinnar var gengið endanlega frá málum vegna viðræðnanna um varnarmál við Bandaríkjastjórn, kl. 12.30 hittu Geir H. Haarde forsætisráðherra og Jón Sigurðsson, starfandi utanríkisráðherra, forystumenn stjórnarandstöðunnar, síðan utanríkismálanefnd og loks héldu þeir blaðamannafund kl. 16.00. Fórst forsætisráðherra kynningin vel úr hendi.
Sjónvarpið ræddi við mig fyrir fréttir sínar kl. 22.00 en gert er ráð fyrir því, að verkefni á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og stofnana þess aukist samkvæmt samkomulaginu og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem því fylgdi.
Ég heyrði í Speglinum, að Gunnar Gunnarsson, fréttamaður, nefndi það, sem ég sagði hér á þessum stað í gær um samskipti Steingríms Hermannssonar við embættismenn um innri öryggismál ríkisins og mátti skilja Gunnar á þann veg, að ekki væru til neinar heimildir um, að rætt hefði verið um þessi mál við Steingrím.
Málið er í sjálfu sér ekki flóknara en það, að hinn 19. mars 1986 flutti Matthías Á Mathiesen, utanríkisráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, þar sem Jón Helgason var dóms- og kirkjumálaráðherra, tillögu um að á vegum ríkisstjórnarinnar yrði sérstökum hópi manna frá utanríkisráðuneyti, dómsmálaráðuneyti og forsætisráðuneyti falið að fara yfir stöðu þessara mála og gera tillögur til úrbóta. Ákvað ríkisstjórnin undir forsæti Steingríms hinn 29. júlí 1986, að þetta skyldi gert. Eins og kunnugt er hafa þeir Steingrímur og Jón báðir sagt, að aldrei hafi verið rætt um þennan þátt öryggismálanna við sig. Hvernig í ósköpunum má það vera? Hver skipaði menn í starfshópinn fyrir þá?
Raunar er furðulegt, að blaðamaður með jafnmikinn áhuga á þessum málum og Gunnar Gunnarsson, skuli ekki hafa getað leitað þetta uppi, hann hefði til dæmis getað farið inn á síðuna hjá þessum bloggara: http://gudmundurmagnusson.blogspot.com/