16.9.2006 21:37

Laugardagur, 16. 09. 06.

Héldum af stað í Fljótshlíðarleitirnar heiman frá mér kl. 07.20 og ég var kominn heim aftur kl. 19.00. Veðrið var einstaklega gott, logn, sólskin og hiti. Ég átti von á, að erfitt yrði að reka féð í hitanum, en það reyndist ekki vera.

Ég var einhesta á Breka og reyndist hann miklu betur en í fyrra, enda var þess gætt í sumar, að hann hlypi ekki í spik auk þess sem ég setti hann í þjálfun síðastliðinn vetur.

Nú er þess minnst, að í dag eru 70 ár frá því að Pourquoi-pas? fórst við Mýrar. Þetta mikla sjóslys sameinar Íslendinga og Frakka á einstæðan hátt. Eins og sjá má hér á síðunum fór ég sem menntamálaráðherra til borgarinnar St. Malo á Bretagne skaga í Frakklandi og afhjúpaði þar við höfnina styttu Einars Jónssonar myndhöggvara um dr. Charcot og Pourquoi-pas?