28.9.2006 21:36

Fimmtudagur, 28. 09. 06.

Í dag efndi ég til funda með forystumönnum hjá embætti ríkislögreglustjóra, landhelgisgæslunnar og Landssambands lögreglumanna til að ræða aukið hlutverk stofnana og starfsmanna á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins við gæslu öryggis landsmanna eftir brottför varnarliðsins.

Össur Skarphéðinsson hefur eins og kunnugt er háð harða baráttu fyrir því innan vébanda þingmannasambands NATO, að Bandaríkjamenn hyrfu ekki með herafla sinn af landinu. Ef marka má frásagnir á vefsíðu hans og annars staðar hefur hann oft þrengt að fulltrúum Bandaríkjanna með ræðum sínum. Þær breyttu þó ekki þeim staðfasta ásetningi Bandaríkjastjórnar að loka Keflavíkurstöðinni.

Nú veltir Össur því fyrir sér, hvort ég telji loftvarnir landsins nægilega vel tryggðar, úr því að orrustuþoturnar séu á bak og burt. Mín skoðun er vissulega sú, að betra hefði verið að hafa þær hér áfram, en á hinn bóginn tel ég þá niðurstöðu, sem fengist hefur með vísan til hreyfanlegs herafla og annarra skuldbindinga, viðunandi fyrir okkur. Össur telur, að þotur hér gætu varnað því, að farþegaflugvél yrði breytt í einskonar eldflaug eins og gerðist 11. september 2001. Össur segir vegna 11. september á vefsíðu sinni:

„Kallar Björn Bjarnason það ekki hættuástand? Það er hins vegar staðreynd, að nýi varnarsamningurinn felur ekki í sér neinar varnir gegn slíkum atburði. Ísland yrði þá fullkomlega varnarlaust. Afhverju skrifar Björn ekki um það?“

Spyrja má af þessu tilefni: Er Össur Skarphéðinsson tilbúinn til að samþykkja lög, sem veita heimild til að skjóta niður farþegaflugvél? Magnea Marínósdóttir, stjórnmálafræðingur, ræðir þessa spurningu í grein í Þjóðmálum 2. hefti á þessu ári, sem heitir: Orrustuþotur eða gagneldflaugar? Hún segir að með gagneldflaugakerfi gegn farþegaflugvél á valdi hryðjuverkahóps gætu Íslendingar riðið á vaðið innan NATO og ákveðið með lögum í samráði við Bandaríkjamenn og NATO hvernig beita mætti flaugunum, ef tilvist þeirra ein dygði ekki sem fæling.

Það gæti verið spennandi fyrir Össur að reifa viðhorfin í grein Magneu á fundi þingmannasambands NATO og upplýsa okkur síðan um, hverjar viðtökurnar urðu. Hann gæti einnig safnað þar upplýsingum um, hve mörg þjóðþing hafi veitt herafla sínum heimild til að skjóta niður farþegaflugvélar á valdi hryðjuverkahóps.