8.9.2006 21:27

Föstudagur, 08. 09. 06.

Schengen-ráðstefna Evrópunefndar og Háskólans á Bifröst var haldin í dag og stóð frá 09.00 til 17.00 undir stjórn Þórunnar J. Hafstein, skrifstofustjóra hjá EFTA, sem er að koma til starfa sem skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 1. nóvember, þar sem hún tekur við starfi Stefáns Eiríkssonar, sem ég skipaði lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu.

Eins og ég sagði frá í dagbókarfærslu fyrr í vikunni fengum við góða fyrirlesara frá Brussel og Noregi til að tala á ráðstefnunni, þar skipti Jean Claude Piris, yfirmaður lagasviðs ráðherraráðs ESB, ekki minnstu. Hann hefur fylgst með þróun Schengen og EES um árabil og tók meðal annars undir það mér í dag, að í umræðum um framtíð EES, ef Noregur færi í ESB, mætti ekki gleyma því, að við gerð EES-samningsins hefði alveg eins verið búist við, að Noregur yrði aðili að ESB og þá aðeins Ísland og Liechtenstein aðilar að EES frá EFTA, þess vegna væri það ekki framandi fyrir ESB, að sú skipan kynni að koma til sögunnar.

Í ræðu minni á ráðstefnunni komst ég að þeirri niðurstöðu, að ekki væri skynsamlegt að ætla sér að sameina EES og Schengen. Var það samdóma álit allra ræðumanna, sem tóku afstöðu til þess - það væri svo sem hægt lagalega en pólitískt mundi það líklega aldrei ganga.

Jean Claude Piris sagði mér, að hinn 2. september hefði birst viðtal við mig í franska blaðinu la Libération um varnarmálin og hef ég sett það hér á síðuna.

Þetta er önnur alþjóðlega ráðstefnan, sem haldin er á vegum Evrópunefndarinnar. Þessi ráðstefna var sérstæð að því leyti, að líklega hefur aldrei verið gerð úttekt af þessu tagi á þróun Schengen samstarfsins og lagt mat á stöðu þess frá þeim sjónarhóli, sem ræðumenn gerðu.

Ræddi við fréttamann NFS um brottför þyrla varnarliðsins um miðjan mánuðinn og áréttaði, að ég hefði aldrei rætt við Bandaríkjamenn, að þeir frestuðu brottför þyrla sinna um nokkra daga eða vikur og það hefði enginn gert að mínu fyrirlagi.