Mánudagur, 25. 09. 06.
Eftir að Sigurgeir Þorgeirsson, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna, gagnrýndi tillögur Samfylkingarinnar um lækkun matarverðs og sýndi með rökum, að þær væru aðför að hag bænda, hefur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, umturnast af heift í hans garð og nú er þessi auglýsingabrella flokksins að breytast í hatursherferð á hendur Sigurgeir.
Ef Ingibjörg Sólrún telur, að með þessum látum afli hún tillögum Samfylkingarinnar einhvers staðar fylgis, er öruggt, að hún fer vill vega. Lætin í henni leiða til þess eins, að enginn tekur eftir því, hvað í tillögunum felst. Fer þá fyrir tillögunum eins og ræðu Gordons Browns, fjármálaráðherra breska Verkamannaflokksins, á þingi flokksins í dag, framboðsræðu til forsætisráðherra, að hún virðist hverfa í skuggann fyrir því, sem Bloomberg-fréttastofan heldur fram að Cherie Blair, forsætisráðherrafrú, hafi sagt, að Brown væri að ljúga, þegar hann lýsti því, hvílík sérréttindi það hefðu verið að starfa með Tony Blair.
Ég tek undir með Steingrími Hermannssyni, fyrrverandi ráðherra, að það væri með miklum ólíkindum, ef embættismenn hefðu ekki upplýst hann um ráðstafanir lögreglunnar til að gæta öryggis ríkisins, þegar hann var dóms- og kirkjumálaráðherra eða forsætisráðherra. Hafi Steingrími ekki verið sagt frá þessum grundvallaratriðum að fyrra bragði, trúi ég ekki öðru en jafnathugull maður og hann hafi spurt.
Hitt er annað mál, að starf á sviði innri öryggismála var allt annars eðlis árið 1978 en fyrir síðari heimsstyrjöldina, þegar Hermann, faðir Steingríms, lagði á ráðin um eftirgrennslan með Agnar Koefod Hansen lögreglustjóra, eða þegar Bjarni Benediktsson beitti sér fyrir öryggisráðstöfunum árið 1948 eða 1950.
Ég var skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu árið 1978, þegar Steingrímur varð ráðherra í fyrsta sinn, og starfaði þá í eitt ár með Ólafi Jóhannessyni forsætisráðherra. Ég fullyrði, að þá var farið með þessi mál á sama veg í forsætisráðuneytinu og þegar Geir Hallgrímsson var forsætisráðherra 1974 til 1978 og Ólafur Jóhannesson, dóms- og kirkjumálaráðherra.
Á þessum árum beindist athygli á sviði innri öryggismála einkum að umsvifum sovéska sendiráðsins, eins og sjá má í blöðum frá þeim tíma.