Miðvikudagur, 27. 09. 06.
Það er forvitnilegt að heyra sagnfræðinga og stjórnmálafræðinga ræða um stöðuna í varnarmálunum, eftir að samkomulag hefur tekist við Bandaríkjamenn. Ég er sammála Þór Whitehead, þegar hann sagði í Kastljósi í kvöld, að hernaðaráætlanir lægju almennt ekki á glámbekk. Þess vegna er undarlegt, að Baldur Þórhallsson skuli gera það að höfuðatriði í málflutningi sínum, að nú þurfi að kynna hernaðaráætlun Bandaríkjamanna til varnar Íslandi, annars hafi hún ekki fælingarmátt.
Fælingarmáttur á tímum kalda stríðsins fólst í varnarstefnu, sem byggðist á stigmögnun átaka, ef til árásar kæmi, og beitingu kjarnorkuvopna að lokum. Áætlanir um það, hvernig brugðist yrði við innan þessarar stefnu, voru ekki birtar, en draga mátti ályktanir um efni þeirra af heræfingum. Fælingarmáttur nú á tímum byggist einnig á varnarstefnu og vitneskju um herafla til að framfylgja þessari stefnu, en ekki á áætlunum um, hvernig heraflanum skuli beitt í einstökum tilvikum - ályktanir um það má hins vegar draga af æfingum og þær á á stunda hér á landi samkvæmt samningnum við Bandaríkin.
Á tímum kalda stríðsins var herafla NATO-ríkja skipað á þann hátt, að hann væri sem næst hugsanlegri víglínu og tilbúinn til átaka með skömmum fyrirvara - þetta átti einnig við hér á Norður-Atlantshafi, einkum á fyrri hluta níunda áratugarins. Stöðug viðvera mikils herafla var einkenni þessarar varnarstefnu. Nú er hreyfanlegur herafli með langan viðbragðstíma einkenni varnarstefnunnar og hernaðaráætlanir vegna Íslands taka mið af því. Ísland hefur enn sérstöðu meðal evrópskra NATO-ríkja að því leyti, að samstarf okkar við Bandaríkin byggist á tvíhliða varnarsamningi.
Það er rétt hjá Vali Ingimundarsyni sagnfræðingi, að það kallar á nokkurn viðvörunartíma að virkja þotur frá til dæmis Skotlandi til loftvarna á Íslandi. Að búa þotur til hernaðarátaka á Norður-Atlantshafi mundi varla tengjast hættuástandi vegna Íslands eins - það yrði liður í herútkalli vegna mun víðtækari hættu.