Mánudagur, 04. 09. 06.
Tæplega 19.30 fór ég í klukkstundarflug með Falcon 2000 þotu frá Dassault, var farið í 41 þúsund feta hæð og flogið á 840 km hraða norður yfir Vestfirði að Akureyri og síðan til Reykjavíkur að nýju. Þetta er glæsileg vel og einstaklega þægileg.
Margrét Frímannsdóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, var í Íslandi í bítið á NFS og ræddi fangelsismál á mun jákvæðari hátt en flokksbræður hennar Björgvin G. Sigurðsson og Ágúst Ólafur Ágústsson, sem hafa alltaf allt á hornum sér, eins og kunnugt er. Margrét taldi á hinn bóginn margt gott hafa áunnist síðustu misseri, þótt vissulega þyrfti að gera betur.
Össur Skarphéðinsson var síðar í sama þætti að ræða póltík við Guðlaug Þ. Þórðarson og fagnaði sérstaklega umbótum á lögreglunni og fjölgun í sérsveitinni. Taldi hann þetta skynsamleg skref til aefla öryggi landsmanna og hér væri ekki þörf á varnarliði. Össur sagði oftar en einu sinni, að í Kastljósi kvöldið áður hefði Davíð Oddsson sagt, að hann hefið viljað segja upp varnarsamningnum vegna tilkynningar Bandaríkjastjórnar 15. mars 2006. Össur sleppti þeim orðum Davíðs, að hann hefði síðan gert nýjan varnarsamning. Hvers vegna skyldi Össur hafa sleppt þessari mikilvægu viðbót?
Ummæli Össurar stinga algjörlega í stúf við stóryrði og skammir flokksbróður hans í Samfylkingunni, Helga Hjörvar, þegar ég var að kynna breytingar á sérsveitinni og stækkun hennar.
Þessi tvöfalda afstaða Samfylkingarfólks í fangelsismálum og sérsveitarmálum leiðir hugann að tvöfeldni sjálfrar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í Kárahnjúkamálinu.
Ég man það úr borgarstjórn í janúar 2003, þegar menn biðu þess spenntir, hvernig hún myndi greiða atkvæði um ábyrgð Reykjavíkurborgar sem eiganda Landsvirkjunar vegna lántöku til að ráðast í Kárahnjúkavirkjun - hún greiddi atkvæði með ábyrgðinni og þar með virkjuninni. Nú mætti helst ætla, að hún hefði ekki gert það, ef hún hefði vitað um athugasemdir Gríms Björnssonar. Helgi Hjörvar, fulltrúi Reykjavíkurborgar í stjórn Landsvirkjunar, hafði fengið þessar athugasemdir í nóvember 2002. Lét hann borgarstjóra ekki vita um þær? Taldi hann þær of léttvægar til þess?
Að Ingibjörg Sólrún skuli telja sig vera í stöðu til að gagnrýna Valgerði Sverrisdóttur, þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, vegna þessara athugasemda Gríms Björnssonar er fráleitt - og ekki síður hitt, að hún telji sig geta hlaupist undan ábyrgð á Káranhjúkavirkjun vegna þess að athugasemdunum hafi verið haldið leyndum!