Þriðjudagur, 12. 09. 06.
Í fréttum var sagt frá því, að Dagsbrún, Baugsmiðlafyrirtækinu, hefði verið skipt í tvennt. Mikill tapsrekstur var á fyrri hluta ársins eða nálægt 1,5 milljarði og Dagsbrún skuldar um 73 milljarða króna eða meira en íslenska ríkið.
í Kastljósi var sýndur átakanlegur þáttur um afleiðingar ofsaaksturs og rætt um, að hann hefði færst mjög í vöxt og ylli gífurlegri hættu í umferðinni. Síðan ræddi Jóhanna Vilhjálmsdóttir við Ragnheiði Davíðsdóttur - Jóhanna spurði mest út frá þeim sjónarhóli, hvort ekki þyrfti að auka ökukennslu og áherslu á umferðarmenningu og öryggi í skólakerfinu. Ragnheiður leit til baka til þess tíma, þegar hún taldi eftirlit lögreglu hafa verið meira og betra en nú á tímum og ítrekaði það, sem hún hefði oft sagt, að eina leiðin væri að auka eftirlit lögreglu og herða refsingar.
Þessi tvö sjónarmið að höfða til kunnáttu og ábyrgðar þess, sem ekur, eða höfða til þess að enn meira eftirlit þurfi að vera á vegunum og harðar tekið á þeim, sem brjóta lögin, eiga bæði erindi í þessum umræðum.
Tölfræði um störf lögreglu sýnir, að hún situr alls ekki auðum höndum, þegar að umferðareftirliti kemur. Að leggja áherslu á sífellt meira eftirlit í stað þess að höfða til ábyrgðar þeirra, sem hlut eiga að máli, kann að leiða til þeirrar ranghugmyndar hjá einhverjum, að allt sé leyfilegt, úr því að ekki séu eftirlitsmenn á hverju strái. Skortur á eftirlitsmönnum getur ekki verið orsök vandans heldur ásetningur þeirra, sem brjóta umferðarlögin. Þessi ásetningur verður ekki upprættur með því að kvarta undan skorti á eftirliti - hann verður aðeins upprættur með því að höfða til samvisku og ábyrgðar þeirra, sem ógna öryggi sjálfra sín og annarra í umferðinni.
Ég dreg í efa, að réttmætt sé að benda til eftirlits og ökulags fyrr á tímum, þegar rætt er um stöðuna núna. Umferðin hefur tekið stakkaskiptum, vegir eru betri en áður og bílar. Það er víðar en hér á landi, þar sem menn eru agndofa andspænis ofsaakstri ungmenna.
Samgönguráðuneytið, sem fer með umferðaröryggismál, hefur samið við embætti ríkislögreglustjóra um sameiginlegar aðgerðir til að vinna að umferðaröryggi. Enginn vafi er á því, að þetta hefur leitt til fjölgunar lögreglubíla á vegunum og návist leiðir vissulega til þess, að ökumenn draga úr hraða. Eftirliti er einnig unnt að sinna með myndavélum á fleiri stöðum en við fjölfarin gatnamót, þar sem umferð er stýrt með ljósum. Sjúkdómurinn verður hins vegar ekki læknaður með eftirliti - það verður aðeins gert með því að sjúklingurinn líti í eigin barm og geri betur.