11.9.2006 21:59

Mánudagur, 11. 09. 06.

Um heim allan minnast menn voðaverkanna í New York og Washington þennan dag fyrir fimm árum, til að sjá hvað ég hafði um hann að segja, bendi ég á færslur mínar hér á síðunni frá þeim tíma.

Í áranna rás hef ég rætt svo mikið um afleiðingar árásarinnar, að ég ætla ekki að bæta neinu við það allt saman á þessari stundu. Mín niðurstaða varð fyrir löngu sú, að ekki væri rétt að tala um stríð gegn hryðjuverkamönnum - þetta væri langvinn barátta stjórnvalda til að tryggja öryggi borgara sinna gegn nýrri ógn.

ABC sjónvarpsstöðin bandaríska mun hafa gert sjónvarpsþætti í tilefni 9/11 eins og Bandaríkjamenn nefna voðaverkin, af því að þau eru svo sérstæð, að ekkert eitt orð dugar til að lýsa þeim. Í þáttunum er aðdragandanum lýst og þar mun koma fram, að í tíð Bills Clintons í Hvíta húsinu hafi ekki verið sýnd nægileg aðgæsla af hálfu stjórnvalda gegn hryðjuverkamönnunum. Fréttir hafa birst um, að Clinton sjálfur hafi reynt að beita áhrifum sínum til að fá þáttunum breytt.

Ég veit ekki meira um málavexti en nefni þetta til að minna á þá eðlilegu kröfu til stjórnvalda, að þau leitist við að byrgja brunninn, áður en barnið dettur ofan í hann.