20.9.2006

Dómsmálaráðherra undrast viðbrögð Sigurðar Gylfa

BJÖRN Bjarnason dómsmálaráðherra lýsir yfir undrun sinni á orðum Sigurðar Gylfa Magnússonar sagnfræðings sem sagði í Morgunblaðinu í gær að undarlegt væri hvernig dómsmálaráðuneytið hefði farið með beiðni Ragnars Aðalsteinssonar lögmanns um að fá aðgang að gögnum um símhleranir.
 

„Mér er ekki kunnugt um að hann hafi leitað neinna upplýsinga hjá mér eða öðrum í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu um það hvernig að afgreiðslu á beiðni Ragnars Aðalsteinssonar lögmanns var staðið. Hvað hann hefur fyrir sér, þegar hann telur afgreiðslu þessa máls mjög undarlega, kemur því miður ekki fram í orðum hans,“ segir Björn og bætir því við að hann hefði að fyrra bragði ætlað að sagnfræðingar fögnuðu því þegar skjöl væru afhent söfnum til varðveislu. „Í umræðum um þessi mál hefur einmitt verið að því fundið að sagnfræðingar virðist hafa meiri aðgang að gögnum Þjóðskjalasafns en aðrir.“

Snertir ekki störf mín

Sigurður Gylfi segir málið ekki síst einkennilegt þar sem Björn sé óbeinn aðili að málinu en faðir Björns, Bjarni Benediktsson, var einn af þeim sem stóðu að hlerunum þegar hann var dómsmálaráðherra.
 
„Um óbeina aðild mína að þessu máli er það eitt að segja að hér er um skjöl að ræða frá því fyrir fjörutíu til næstum sextíu árum, sem ber að fara með í samræmi við opinber lög og reglur. Þótt faðir minn, Bjarni Benediktsson, hafi þá gegnt ráðherraembætti og tekið ákvarðanir á þeim tíma, sem síðan voru bornar undir dómara til endanlegrar niðurstöðu, snertir það störf mín sem dómsmálaráðherra árið 2006 alls ekki neitt.“
 

Björn segist vilja ítreka það, sem hann hefur margsagt, að birta eigi öll gögn úr sögu kalda stríðsins í samræmi við reglur um birtingu opinberra gagna, og ekki eigi að mismuna mönnum í því sambandi.