13.9.2006 22:03

Miðvikudagur, 13. 09. 06.

Flaug norður á Akureyri kl. 07.45, þar sem Guðmundur Skarphéðinsson tók á móti okkur Hjalta Zophaníassyni, skrifstofustjóra í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, og Þorsteini Davíðssyni og ók okkur til Siglufjarðar.

Við hittum Guðgeir Eyjólfsson sýslumann og Halldór Halldórsson lögfræðing hjá honum og ræddum um flutning bótanefndar til sýslumannsembættisins og framkvæmd mála frá því, að það var gert.

Bæjarstjórn bauð okkur til hádegisverðar í Bátahúsi Síldarminjasafnsins og skoðuðum við þetta einstaka safn, sem hefur að miklum verðleikum hlotið evrópska safnaviðurkenningu.

Að lokinni heimsókninni til Siglufjarðar ók Guðmundur okkur um Siglufjarðarskarð til Akureyrar og lentum við í Reykjavík um 19. 15.