Fimmtudagur, 07. 09. 06.
Sigríður Sól, dóttir mín, og Heiðar Már, maður hennar, eignuðust dóttur í London í dag, hún er 18,5 merkur og heilsast þeim mæðgum vel, þetta er þriðja barn þeirra og þar með þriðja barnabarn okkar Rutar, fyrir eiga þau tvo syni, Orra 6 ára og Bjarka 4 ára.
Ég heyrði í fréttum sagt frá fundi allsherjarnefndar alþingis í morgun um fangelsismál. Þetta var gert á forsendum Björgvins G. Sigurðssonar, þingmanns Samfylkingarinnar. Það virðist sama hvort hann næstum missir af flugvél til Kiruna eða heimtar fund í allsherjarnefnd - alltaf hlaupa sumir fréttamenn á eftir honum og sitja síðan uppi með eitthvað, sem ekkert er.
Björgvin G. heimtar fund í allsherjarnefnd vegna þess að ég geri ekkert í fangelsismálum og krefst þess, að ég sitji fundinn. Þetta fer í fjölmiðla og látið er eins og þessi krafa hans á hendur mér hafi eitthvert annað gildi en einmitt að komast í fjölmiðla. Allir vita, að ég mun ekki sitja fund allsherjarnefndar til að svara Björgvini.
Nefndarfundurinn er haldinn að morgni 7. september og þangað fara Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, og Valtýr Sigurðsson, fangelsismálastjóri. Þau lýsa því fyrir nefndarmönnum, hvað er að gerast í fangelsismálum og þar sé markvisst unnið að umbótum.
Fjölmiðlamenn tala aftur við Björgvin G., sem endurtekur sömu rulluna og fyrir fundinn og látið er í veðri vaka, að það sé eitthvað dularfullt við að ég hafi ekki sótt hann.
Eftir stendur: Hverju breytti þetta brölt allt saman? Hvers vegna láta fjölmiðlamenn við það sitja að elta Björgvin G. í þessu máli? Ég er hins vegar sömu skoðunar og áður, að það sé ekki neinu máli til framdráttar, að Björgvin G. Sigurðsson taki það upp á sína arma. Það hefur að minnsta kosti ekki aukið áhuga minn á því að koma til móts við óskir og sjónarmið Samfylkingarinnar í fangelsismálum að fylgjast með þessum æfingum þingmannsins, sem snúast í raun ekki um fangelsismál heldur um viðleitni hans til að gera lítið úr því, sem verið er að gera til að bæta fangelsin í von um að koma póltísku höggi á mig - og væntanlega upphefja sjálfan sig á kostnað annarra.