Föstudagur, 15. 09. 06.
Eftir fundi fram í hádegið hélt ég austur í Fljótshlíð síðdegis og fór um klukkan 18.00 á hestinum Breka upp að Reynifelli, vestan Þríhyrnings, en þangað höfðu bændur farið með hóp hrossa til að geyma yfír nóttina fyrir leitirnar á morgun. Veðrið var eins og best verður á kosið.
Samfylkingin er að keppa við vinstri/græn í umhverfismálum og vill nú setja eitthvert bann á framkvæmdir til að gæta að umhverfinu. Undir forystu Dags B. Eggertssonar Samfylkingarmanns eru hins vegar uppi áform um að vega að umhverfi Öskjuhlíðar með 2000 jeppa bílastæði milli Nauthólsvíkur og hlíðarinnar auk bygginga Háskólans í Reykjavík. Skyldi framkvæmdabann Samfylkingarinnar í þágu umhverfis fela í sér bann við framkvæmdum í Vatnsmýrinni við jaðar Öskjuhlíðarinnar.
Á forsíðu Morgunblaðsins í dag er sagt frá því, að bygging höfuðstöðva Orkuveitu Reykjavíkur hafi kostað 5,8 milljarða króna - en talan er ívið hætti en sú, sem við sjálfstæðismenn nefndum í umræðum um kosnað við höfuðstöðvarnar. Okkar tölum var hins vegar alltaf mótmælt sem alltof háum, Með hliðsjón af því, hve heitt þetta mál var í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna 2002, hefði mátt ætla, að þeir létu til sín heyra í þeim umbrotum, sem nú verða.