20.6.2008 20:28

Föstudagur, 20. 06. 08.

Síðdegis ókum við Össur Skarphéðinsson að Austur-Meðalholtum í Flóa og heimsóttum hjónin Kristínu Magnúsdóttur og Hannes Lárusson, sem vinna þar að merkum verkefnum undir heitinu Íslenski bærinn - www.islenskibaerinn.com . Markmiðið er að kynna íslenskan torfbæjaarf í þúsund ár. Sögu, tækni, fagurfræði. Þarna má sjá staðbundinn byggingararf, hefðbundið hadverk og samtímalist. Unnið er að því að hrinda þessu hugsjónastarfi í framkvæmd með nýbyggingu og endurreisn gamalla húsa.

Við Össur höfðum áhuga á að kynnast því, sem er að gerast í Austur-Meðalholtum af eigin raun með því að heimsækja þau hjón, þar sem við teljum, að nýta eigi krafta Hannesar við að hrinda þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar í framkvæmd, að íslenski torfbærinn komist á heimsminjaskrá UNESCO.

Morgunblaðið birti við mig viðtal í dag um framkvæmdir í fangelsismálum og ákvörðun um verkaskiptingu milli væntanlegs fangelsis á höfuðborgarsvæðinu og Litla Hrauns. Ég set viðtalið hér á síðuna en tek mér það bessaleyfi að leiðrétta ömurlega málvillu í því, til að augljóst sé, að ég kann að nota orðatiltækið „ríða baggamuninn“.