7.6.2008

Marklaus samanburður - um hleranir.

Morgunblaðið 7. júní, 2008.

HJÖRLEIFUR Guttormsson alþingismaður ritar grein um hleranir í Morgunblaðið 6. júní. Hann lætur eins og unnt sé að bera saman upplýsingar um lögregluaðgerðir hér á landi á árum kalda stríðsins og pólitískar hleranir leyniþjónustu í Noregi. Á þessu tvennu er grundvallarmunur, sem gerir samanburð Hjörleifs marklausan.

Lögregluaðgerðir

(símhleranir í þágu lögreglu):

a. eru löglegar (með samþykki dómara),

b. standa stutt, eru bundnar tilteknum atburðum,

c. eru eingöngu notaðar í þágu lögreglu.

Pólitískar hleranir:

a. eru ólöglegar,

b. standa um langan tíma (ótímabundnar),

c. eru notaðar til að koma upplýsingum á framfæri við pólitískra andstæðinga.

Fyrir liggur ýtarleg skýrsla hlutlausra aðila um öll þessi mál hér á landi. Ég skora á Morgunblaðið að endurbirta efni þessarar skýrslu. Hún gefur trúverðugri mynd af því sem hér gerðist á tímum kalda stríðsins en lýsingar Kjartans Ólafssonar og Hjörleifs Guttormssonar.

Málsvarar sósíalisma og kommúnisma á Íslandi á tímum kalda stríðsins geta ekki leitað neins skjóls í því, sem gerðist í Noregi þá eða nú. Þar er gjörólíku saman að jafna.