Laugardagur, 14. 06. 08.
Skálholtskvartettinn hélt lokatónleika sína á Mallorca í kvöld í mikilli menningarmistöð, Centro Cultural Andratx, CCA, í bænum Andtrax um 20 km vestur af Palma. Þarna er 4000 fermetra bygging helguð nútímamyndlist - risastórir sýningarsalir, vinnuaðstaða, listamannaíbúðir, veitingastaður og allt gert á þann veg að stórhugurinn vekur undrun. Miðstöðin kom til sögunnar árið 2001 að frumkvæði dönsku hjónanna Jacobs og Patriciu Asbæks, en þau eru heimskunn meðal myndlistarmanna fyrir gallerí sitt í Kaupmannahöfn.
Kynni okkar af Mallorca á þessari tónleikaferð voru annan veg en ef við hefðum gert okkur ferð þangað til að njóta strandlífs og sólar. Kom okkur skemmtilega á óvart að kynnast þeim menningaráhuga, sem birtist í því, hve tónleikar Skálholtskvartettsins voru vel sóttir og mikils metnir.