1.6.2008 21:53

Sunnudagur, 01. 06. 08.

Í pistli mínum í dag dreg ég saman nokkur atriði vegna jarðskjálftans 29. maí og nefni í því sambandi tillögu mína um varalið, það er að lögregla hafi heimild til að kalla út menn til að taka að sér verkefni fullgildra lögreglumanna, þegar þeir þurfa að einbeita sér að óvæntu sérverkefni.

Útdráttur úr pistlinum er birtur á mbl.is og viti menn, fólk tekur til við að blogga um orð mín og sumir láta enn og aftur eins og ég sé að leggja til stofnun herafla eða jafnvel að móðga björgunarsveitir og aðra, sem brugðust við á frábæran hátt, þegar kallið kom vegna skjálftans.

Hvernig í ósköpunum unnt er að draga þessar ályktanir af orðum mínum, er ofvaxið mínum skilningi. Varalið er varalið - kallað á vettvang í stað aðalliðsins, þegar það er bundið við annað, til dæmis björgunarstörf vegna jarðskjálfta. Að heimild sé til slíks jafngildir ekki að koma á fót herliði eða draga úr áherslu að nauðsyn öflugs lögregluliðs.

Þegar varnarliðið fór af landi brott, tók ríkisstjórnin nokkrar ákvarðanir. Ein þeirra sneri að því að tetravæða fjarskipti lögreglu og björgunarsveita, eins og síðan hefur verið gert með frábærum árangri. Önnur var að veita lögregluyfirvöldum heimild til að kalla út varalið. 

Varnarmálastofnun tók til starfa í dag á vegum utanríkisráðuneytisins. Hún á að sinna hernaðarlegum málefnum á vegum ríkisins. Þeir, sem hafa áhuga á því, hvort íslenska ríkið haldi úti hernaðarlegri starfsemi eiga að beina athygli sinni að störfum þessarar stofnunar en ekki þeirra, sem starfa á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Við afgreiðslu alþingis á lögum um varnarmálastofnun var lögð áhersla á eldveggi milli varnarmálastofnunar og borgaralegra stofnana á borð við landhelgisgæslu og lögreglu.