23.6.2008 20:49

Mánudagur, 23. 06. 08.

Megintilgangur ferðar okkar á þessar slóðir  er að sitja málþing um forna þingstaði við N-Atlantshaf. Forráðamenn Gula og gæslumenn Gulaþings áttu frumkvæði að þessum fundi og hann sækja auk Norðmanna fulltrúar frá Orkneyjum, Skotlandi, Mön, Færeyjum, Íslandi og Grænlandi. Þá eru einnig fræðimenn á sviði sagnfræði og ferðamála meðal ræðumanna.

Þingvellir skipta miklu í þessu samhengi, því að þeir eru eini forni þingstaðurinn, sem hefur fengið viðurkenningu með skráningu á heimsminjskrá UNESCO auk þess að vera mest sótti þingstaðurinn af ferðamönnum.

Ég flutti stutt erindi á málþinginu um  Þingvelli og áform um fjölþjóðlega skráningu víkingaminja hjá UNESCO.  Ísland hefur tekið að sér forystu þess verkefnis og er það í undirbúningi á vegum heimsminjanefndar, þar sem við sitjum Össur Skarphéðinsson, Sæunn Srefánsdóttir og ég. Gerði ég grein fyrir stöðu málsins hjá nefndinni, en menntamálaráðuneytið hefur unnið að því að fá staðfestan áhuga ríkisstjórna annarra landa á þátttöku. Þá greindi ég einnig frá því, að í september yrði fundur  evrópskra fræðimanna á Íslandi um forn þing frá Agórunni í Aþenu til alþingis á Þingvöllum.

Umræðurnar í Eivindvik staðfestu mikinn og vaxandi áhuga á þessum forna arfi. Hitt er víst, að skráning víkingaminjanna er síður en svo einfalt viðfangsefni.

Sigurður K. Oddsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, og Einar Á. E. Sæmundsen, fræðufulltrúi þjóðgarðsins, kynntu innra starf á Þingvöllum og síðan svöruðum við spurningum fundarmanna.

Heide Grande Röys, samstarfsráðherra Norðurlanda í ríkisstjórn Noregs, var meðal ræðumanna á fundinum og lýsti eindregnum stuðningi norsku ríkisstjórnarinnar við hið sameiginlega víkingaverkefni og þá ætlan, að hefja hina fornu þingstaði til vegs og virðingar. Vandi þeirra Gulaþingsmanna er, að ekki er nein staðfest vitneskja fyrir hendi um gamla þingstaðinn, hins vegar er talið, að hann hafi verið, þar sem bæjarskrifstofurnar í Eivindvik eru nú.

Í lok málþingsins var ákveðið að boða til fundar um þetta efni á Íslandi árið 2009.