19.6.2008 21:25

Fimmtudagur, 19. 06. 08.

Þar sem ég var bundinn á fundi, fór Þórir Hrafnsson, aðstoðarmaður minn, á Austurvöll klukkan 11.00 og tók við bleika steininum frá feministum. Hann er afhentur í tilefni kvenréttindadagsins til að brýna menn til dáða í jafnréttismálum.

Klukkan 13.00 var ég í þéttsetinni Bústaðakirkju við útför herra Ólafs Skúlasonar biskups. Séra Skúli, sonur hans, flutti fögur minningarorð en séra Pálmi Matthíasson þjónaði fyrir altari og moldaði, en herra Karl Sigurbjörnsson biskup flutti ávarp við upphaf athafnar og blessunarorð í lok hennar.

Ávallt þegar við Ólafur hittumst, skiptumst við á kveðju og nokkrum orðum. Hann og frú Ebba, kona hans, hafa jafnan sýnt okkur Rut einlæga vináttu og kveð ég hann með söknuði. 

Sænska þingið samþykkti í dag lög, sem heimila leyniþjónustunni, Säpo, (ekki lögreglunni) að hlera alþjóðasímtöl og skoða alþjóðleg tölvu- og faxsamskipti án þess að leita til þess heimildar hjá dómara. Andstæðingar laganna segja, að með þeim sé gengið lengra við hleranir en í nokkru öðru Evrópulandi. Málsvarar laganna segja þau nauðsynleg til að tryggja öryggi þjóðarinnar. Innanlandssamskipti verði ekki hleruð.

Í nýjasta hefti tímaritsins Foreign Affairs, júlí/águst 2008, er fjögurra blaðsíðna kostuð kynning á Íslandi. Birtir eru kaflar úr viðtali við Geir H. Haarde, forsætisráðherra, um efnahagsmál, sem kom upphaflega í Iceland Review í mars 2008. Þá er grein eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, um nauðsyn þess, að Ísland fái sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.