Þriðjudagur, 03. 06. 08.
Klukkan 18.00 var ég í ráðhúsinu á Selfossi og efndi þar til fundar með fulltrúum sveitarfélaganna Árborgar, Hveragerðis, Grafnings og Ölfuss, sýslumanninum á Selfossi, fulltrúum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, forstjóra Neyðarlínunnar og fulltrúum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.
Tilefnið var að stofna formlega þjónustumiðstöð í þágu íbúa sveitarfélaganna vegna jarðskjálftanna og kynna verkefnastjóra á vegum almannavarnadeildarinnar, Ólaf Örn Haraldsson, fyrrverandi alþingismann, en hann verður tengiliður vegna þessara þjónustumiðstöðva milli allra þeirra, sem að þeim koma, í umboði almannavarnadeildar.
Að loknum fundinum fórum við í þjónustumiðstöðina í Tryggvaskála á Selfossi og ræddum við fulltrúa Rauða krossins, sem þar hafa starfað síðan föstudaginn 30. maí, þegar miðstöðin var opnuð. Þaðan ókum við í Hveragerði og fórum í húsnæði Rauða krossins þar og hittum þá, sem þar hafa starfað síðan 30. maí. Í báðum miðstöðvunum hefur fólk haft nóg að gera. Var það mat heimamanna, að þessari þjónustu hefði verið vel tekið og af þakklæti.
Ánægjulegt var að heyra lýsingar á því, hvel vel og greiðlega allir aðilar höfðu verið virkjaðir til hjálpar og aðstoðar eftir jarðskjálftann 29. maí.