25.6.2008 21:16

Miðvikudagur, 25. 06. 08.

Við héldum af stað klukkan 09.00 með Magne Bjergene  og ókum fyrst til Dale, þar sem  Arve Helle, sveitarstjóri, tók á móti okkur í sólskininu, hitinn var 9 gráður og sagði Magne hann hafa farið í frostmark um nóttina.

Dale er við Dalsfjörðinn en þeir fóstbræður Ingólfur og Hjörleifur lögðu upp úr firðinum í ferð sína til Íslands. Tengsl Íslands við Dale voru mikil á síldarárunum, því að þaðan komu síldartunnurnar í söltunarstöðvarnar og sagðist Arve Helle muna eftir því, þegar allir, sem vettlingi gátu valdið, voru kallaðir út til aðferma síldartunnuskipin til Íslands.  Hefði hann verið í þeim hópi undir lok síldaráranna.  Petter Jonny Rivedal  í Rivedal, sem er út með firðinum að norðanverðu, sagðist eiga eina af þessum tunnum ósnerta í kjallara sínum, hún hefði dottið af  skipi og flotið í land.  Þetta væri síðasta síldartunnan til Íslands frá Dale! Ég sagði hana eiga heima á Síldarminjasafninu á Siglufirði og tók hann vel í það. Arve Helle hefur áhuga á að stofna til vinabæjarsambands við bæ á Íslandi til að efla tengslin.

Frá Dale ókum við inn með firðinum til Osen í Gaular kommune og hittum þar Jenny Fælling sveitarstjóra . Osen er myndarlegur bóndabær á sléttu í botni fjarðarins við árós og um 12 metra háan  foss. Þessi staður á sögu langt aftur í aldir, jafnvel 2000 ár fyrir Krists burð. Þar hafa einnig  fundist haugar og  langhús frá um 800, sem er sagt nákvæmlega eins og langhúsið í hjarta Reykjavíkur, við Aðalstræti, þar sem Ingólfur tók sér búsetu.

Leiðsögn og gestrisni hjónanna  í Osen, Unn Karin Kleppe og Olaf  Johan Mo, var einstök.  Við bæinn þeirra hefur Gaularleikverkið verið sýnt annað hvert ár í 20 ár, en þar segir frá átökum Atla jarls og Ingólfs Arnarsonar, sem lýkur með Íslandsför Ingólfs.  Jenny Fælling fagnaði því að Gaulen væri í sérstöku sambandi við Áskirkju. Við Osen er laxastigi við hlið fossins, en hann var gerður af  Íra um 1870 og er talinn þriðji laxastigi í veröldinni.

Næst var tekin ferja í Dale og siglt í 25 mínútur yfir fjörðinn til Eikenes og þaðan ókum við 1.5 kílómetra til Rivedal. Þar var okkur tekið fagnandi undir forystu  Petter Jonny Rivedal af hálfu Rivedælinga og Aud Kari Steinsland, sveitarstjóra í Askvoll. Boðinn var hádegisverður í samkomuhúsinu, fyrrverandi skólahúsi, og kynning á þeim þætti úr sögu staðarins, sem tengist því, þegar kýr voru  reknar á fjöll til sumardvalar og konur fóru þangað til mjalta og bjuggu í seljum auk þess sem leikið var fyrir okkur á Harðangursfiðlu.

Íslendingar eru aufúsugestir í Rivedal, vegna þess að þar gnæfir stytta Ingólfs Arnarsonar eftir Einar Jónsson. Er það til marks um, að Ingólfur bjó í Rivedal, áður en hann hélt til Íslands.

Hinn 17. Júní 1955 gekk Ásgeir Ásgeirsson, forseti Íslands, á land við bautastein í Rivedal, tók mold og setti í tóbaksdósir og lýsti yfir, að þetta væri mold Ingólfs Arnarsonar, sem hann tæki með sér til Íslands. Á hinni opinberu dagskrá var ekki, að forseti skyldi fara í land á þessum stað, enda engin bryggja. Á hinn bóginn höfðu Rivedælingar æft börn sín í að syngja íslenska þjóðsönginn og hljómaði hann út á hafið, þegar skip forseta og föruneytis hans leið fram hjá og óskaði forseti eftir, að skipið yrði stöðvað og hann gengi í land.

Hópur Íslendinga fór í Noregsferð, sem kennd var við fótspor Egils Skallagrímssonar, árið 1957. Þeir komu til Rivedal og síðan var ákveðið að Íslendingar skyldu gefa þangað styttu af Ingólfi Arnarsyni. Faðir minn fór sem starfandi forsætisráðherra fyrir stórum hópi Íslendinga með strandferðaskipinu Heklu til Rivedal í september 1961. Var ég með í þeirri ferð og er hún mér minnisstæðust fyrir aftakaveður á ferð Heklunnar yfir hafið. Varð að fresta afhjúpun styttunnar um einn daga vegna þess að siglingin tók lengri tíma en ætlað var – en hún var afhjúpuð mánudaginn 18. September, 1961.

Nú var ég sem sagt aftur á sömu slóðum og í fyrstu ferð minni til útlanda og hitti fólk, sem mundi vel eftir þessum atburði, og rifjaði upp, að þá hefðu meira en 3000 manns komið til hátíðarhalda í Rivedal. Magne  Bjergene, sem býr í Dale, var þá 19 ára og lék á trommu í lúðrasveit sveitarfélagsins og minnist þess enn, hve vel íslenski þjóðsöngurinn var æfður.

Þegar við gengum eftir þjóðveginum í átt að styttunni, reið maður klæddur að hætti fornmanna á móti okkur á íslenskum hesti og síðan á undan okkur á áfangastað, þar sem fánar Noregs og Íslands blöktu. Hann á tíu íslenska hesta.

Umhirða svæðsins við styttuna er til mikillar fyrirmyndar. Þar er flaggað með fánum beggja landa 17. maí  og 17. júní. Styttan stendur á hæð nokkuð frá sjó og sést vel frá þjóðveginum. Ingólfur snýr í vestur í átt til Íslands. Rivedælingar eru stoltir af Ingólfi og tengslunum við Ísland og vilja rækta þau og efla á alla lund.

Að lokinni stuttri viðdvöl við styttuna, þar sem meðal annarra voru tvær blaðakonur frá heimablöðum, ókum við til Holmedal, að bryggjunni, þar sem Hekla lá. Þar við hliðina er Helle, heimsfræg hnífasmiðja, og fengum við að skoða.

Þá var haldið að bautasteininum, þar sem Ásgeir forseti hóf  þetta landnám Íslendinga í Rivedal undir merkjum Ingólfs Arnarsonar.

Eftir um fjögurra tíma dvöl í Rivedal, sem lauk með kaffi og tertu í samkomuhúsinu, kvöddum við Magne Bjergene og héldum með Audi Turi Steinsland,  sveitarstjóra í Askvoll – Rivedal er nú í sveitarfélaginu Askvoll en ekki Fjalar, eins og áður – til Askvollbæjar, þar sem sigldum af stað með hurtigrute-bátnum til Bergen kl, 17. 40. Við vorum í Bergen rétt tæplega þremur tímum síðar.