16.6.2008 20:39

Mánudagur, 16. 06. 08.

Það léttir töluvert störf við heimkomu, að hafa verið í tölvusambandi við samstarfsfólk á ferðalagi erlendis, þó bíða ávallt nokkur verkefni á skrifborðinu - að þessu sinni til dæmis nokkrir tugir ríkisborgarabréfa til undirritunar.

Síðdegis var ég við hátíðlega athöfn, þegar sendiherra Chile sæmdi Brynjólf Bjarnason, stórriddarakrossi með stjörnu, fyrir störf hans sem aðalræðismaður Chile á Íslandi. Brynjólfur hefur látið af ræðismannsstörfunum og Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri Granda, tekið við af honum.

Enn bárust fréttir af hvítabirni á Skaga, nú í nágrenni Hrauns, þar sem hann gæddi sér á eggjum í æðarvarpi. Með aðstoð Dana og fjárhagslegum stuðningi Novators er ætlunin að bjarga dýrinu lifandi.