21.6.2008 21:08

Laugardagur, 21. 06. 08.

Flugum kl. 10.20 til Bergen og tók ferðin 95 mínútur. Hæfileg flugferð milli borga í Evrópu! Sólbjart var við brottför en rigning og frekar kalt í Bergen, þegar Anne-Karin Misje, forstöðumaður Gulaþings-verkefnisins, tók á móti okkur.

Ég heimsótti heimili Edvards Griegs árið 1961, svo að það var tímabært að komast aftur á Troldhaugen, þar sem húsið stendur. Síðan hefur verið reistur fallegur tónlistarsalur við hliðina á húsinu með útsýnisglugga af sviðinu yfir að komponista-húsinu niður við vatnið. Þar sat Grieg og samdi við glugga fram að vatninu. Þá er einnig safn þarna, en bæði nýju húsin falla svo vel inn í umhverfið, að gamla íbúðarhúsið nýtur sín ótruflað.

46 tónleikar eru á Troldhaugen, í tónlistarsalnum við Grieg-húsið nú í sumar, frá 7. júní til 26. október. Samkvæmt tónleikaskránni verða 6. júlí tónleikar með Harald Björköy, tenór, og Selmu Guðmundsdóttur, píanóleikara. Á hverjum tónleikum er að minnsta kosti eitt verk eftir Grieg.

Við innganginn í tónlistarsalinn er stytta af Grieg í fullri líkamsstærð en hann var aðeins 152 cm á hæð. Ungur að árum fékk hann berkla og féll vinstra lungað saman. Á myndum heldur hann oft hendinni upp að hálsi vinstra megin til að hylja hið samfallna brjóst. Þá voru púðar settir í vinstra brjóst jakka hans til að ekki sæist munur á hægri og vinstri hlið hans.

Svanur Kristjánsson prófessor hefur ritað tvær greinar í Fréttablaðið til að ófrægja Hannes Hólmstein Gissurarson, prófessor og samkennara sinn við félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Jafnframt hefur Svanir veist að Ólafi Þ. Harðarsyni, prófessor við sömu deild, auk þess að gagnrýna Kristínu Ingólfsdóttur, rektor Háskóla Íslands. Á bakvið þessi skrif býr óvenjulegur illvilji.

Ég hef ekki kynnt mér önnur skrif Svans á fræðasviðinu en þau, sem snerta embætti forseta Íslands. Þau ná ekki máli, heldur byggjast á annarlegum sjónarmiðum eins og skrif Svans um Hannes Hólmstein.