17.6.2008 21:15

Þriðjudagur, 17. 06. 08.

Tók þátt í þjóðhátíðarhöldum Fljótshlíðinga í Goðalandi. Fræddist um ferðir þrílembunnar minnar, sem var týnd í allan vetur og var nú sögð í túnjaðrinum hjá mér með afkvæmi sín. Tel líklegt, að hún sé svona hænd að nágranna mínum í Kollabæ, sem hefur reynst henni betri en enginn.

Rétt í þann mund, sem talið var, að tækist að svæfa hvítabjörninn við Hraun á Skaga, setja hann í búr og um borð í varðskip til flutnings á Grænlandsís, barst fregn um, að óargadýrið hefði fælst vegna mannaferða og verið fellt með skotvopni. Þannig fór um sjóferð þá hjá þessum bangsa, sem reyndist birna, særð og svo illa vannærð, að sagt var, að hún hefði líklega ekki lifað áraunina af svæfingu og flutningi.

Það er fengur að því fyrir Morgunblaðið að Kolbrún Bergþórsdóttir fylgdi Ólafi Þ. Stephensen ritstjóra til starfa á blaðinu. Til marks um það má nefna grein Kolbrúnar við hlið leiðara blaðsins í dag.

Kolbrún segir meðal annars: „Eitt sinn, og það er ekki ýkja langt síðan, ólu foreldrar börn sín upp í því að bera virðingu fyrir lögum og reglum og þar með lögreglunni. Ef lögregla mætti á svæði þar sem slagsmál fóru fram þá leystust ólæti yfirleitt upp. Nú sér fólk ekkert athugavert við að veitast að lögreglu geri hún sig líklega til að skakka leikinn.“

Til að herða á refsingu fyrir árásir á lögreglumenn beitti ég mér fyrir breytingu á almennu hegningarlögunum veturinn 2006/2007. Á þetta nýja ákvæði reyndi í hæstarréttardómi frá 5. júní sl.

Í forsendum dómsins segir m.a.:

„Ákærði er fundinn sekur um alvarlega árás á lögreglumann. Hinn 23. mars 2007 tóku gildi lög nr. 25/2007 um breyting á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 þar sem bætt var 2. málslið við 1. mgr. 106. gr. um brot gegn opinberum starfsmanni. Viðbótin kveður á um að beinist brot gegn opinberum starfsmanni, sem að lögum hefur heimild til líkamlegrar valdbeitingar, megi beita fangelsi allt að átta árum. Brot ákærða var framið eftir að þessi viðbót gekk í gildi. Með henni var vernd lögreglumanna í starfi aukin. Ákærði er auk brots gegn valdstjórninni sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Afleiðingar brotsins voru töluverðar svo sem lýst er í héraðsdómi. Eins og atvikum máls þessa er háttað og með hliðsjón af dómafordæmum fyrir framangreinda lagabreytingu og að teknu tilliti til hennar, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði.“

Feitletrunin er mín en í henni felst afdráttarlaus staðfesting hæstaréttar á ætlun löggjafans með lagabreytingunni um aukna refsivernd lögreglumanna.