26.4.2013 22:50

Föstudagur 26. 04. 13

Umræðuþátturinn í sjónvarpinu í kvöld þar sem fulltrúar framboða sem bjóða fram á landinu öllu ræddu stjórnmálin daginn fyrir kjördag undir stjórn Jóhönnu Vigdísar Hjaltadóttur og Sigmars Guðmundssonar er eini umræðuþátturinn sem hefur vakið áhuga minn í kosningabaráttunni. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum og tel að Bjarni Benediktsson hafi borið höfuð og herðar yfir aðra þátttakendur enda varð hann einskonar öxull í umræðunum. Leitast var við að brjóta hann sem tókst ekki og hann lét ekki ómaklegar ávirðingar setja sig út af laginu.

Umræðurnar drógu fram muninn á einsmálsflokkum og fámennisflokkum sem hafa orðið til í skyndi í kringum menn (Björt framtíð) eða þröng málefni (Lýðræðisflokkurinn, Regnbogaflokkurinn) eða um málefni sem kynnt eru með lýðskrumi (Hægri grænir, Flokkur heimilanna, Píratar og Dögun) og hinum hefðbundnu flokkum: Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki, Samfylkingu og VG.

Meiri kröfur eru eðlilega gerðar til flokka sem kjósa forystumenn og móta stefnu á lýðræðislegan hátt innan samþykkts skipulags en þeirra sem verða til með hraði og þar sem menn skipa sér sjálfir í forystusæti með því að velja sér titil eins og „vaktstjóri“ eða „kapteinn“.

Ég skrifaði pistil í tilefni kosninganna hér á síðuna sem lesa má hér.