26.4.2013

Daginn fyrir kjördag

Kjördagur er á morgun. Kosningabaráttan hefur einkennst af vilja kjósenda til að ýta stjórnarflokkunum til hliðar. Samfylking og VG tapa miklu fylgi miðað við kannanir. Ríkisstjórninni var lýst af aðstandendum hennar sem fyrstu „hreinu“ vinstri stjórninni af því að framsóknarmenn áttu ekki sæti í henni. Þeir áttu hins vegar þátt í að koma henni á laggirnar með hlutleysi þegar Jóhanna Sigurðardóttir myndaði stjórn sína 1. febrúar 2009. Hefðu Samfylking og VG ekki fengið nægan fjölda þingmanna til að mynda meirihlutastjórn eftir kosningarnar 25. apríl 2009 hefðu framsóknarmenn vafalaust sest í stjórn með þeim.

Ríkisstjórninni varð nauðugur kostur að taka á fjármálum ríkisins á annan hátt en gert hafði verið fram að hruni þegar jöfnuður eða afgangur einkenndi rekstur ríkisins og skuldir lækkuðu jafnt og þétt þrátt fyrir lága skatta. Ríkisstjórnin tók hins vegar rangt á málum þegar sósíalistar settust að í fjármálaráðuneytinu og tóku til við að hækka skatta. Þeir drápu allt atvinnulíf í dróma. Fjárfesting hefur verið hin minnsta frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Þegar ríkisstjórnin kveður hefur hún aukið skuldir ríkisins um 1.200 milljarða á kjörtímabilinu. Það hefur ekki verið tekið á ríkisfjármálum af neinni festu heldur látið reka á reiðanum í skjóli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Nú nema greiðslur ríkissjóðs vegna lána um 90 milljörðum á ári, það er andvirði eins hátæknisjúkrahúss, ár hvert. Þetta fé er tekið af óskiptu áður en tekið er til við að ákvarða fjárveitingar til heilbrigðismála, velferðarmála, menntamála og öryggismála.

Enginn vafi er á að eftir kosningar verður talað á allt annan hátt um fjármál ríkisins en gert er núna. Það mun renna upp fyrir þeim sem um þau mál sýsla að fjögur ár hafa farið til spillis, í stað þess að losa krafta þjóðarinnar úr læðingi hefur krumla sósíalisma og vinstrimennsku hvílt á þjóðinni. Brotthvarf hennar eitt mun lofa góðu um framhaldið en meira þarf.

Gjaldeyrishöft voru sett haustið 2008 og ætlunin var að þau giltu í 10 til 12 mánuði. Þau eru enn. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa ekki haft áhuga á að afnema þau. Samfylkingin notar höftin sem vogarstöng til að komast inn í ESB. VG vill halda í höftin til að hlutast til um málefni einstaklinga og fyrirtækja þeirra. Höftin verðu hins vegar að afnema til að skapa efnahagslegt svigrúm.

Ríkisstjórnin átti þrjú óskamál: að kollvarpa kvótakerfinu, að skipta um stjórnarskrá og að Ísland yrði aðili að ESB. Allt bendir til að þessum deilumálum verði sópað út af borðinu í kosningunum. Kjósendur átta sig á að önnur og brýnni mál skipta meiru en gælumál af þessu tagi.

Miðað við vilja meirihluta þjóðarinnar sem er andvígur aðild að ESB er furðulegt hve ýmsir stjórnmálamenn flokka sem hafa ályktað í þessa veru láta frá sér mikla loðmullu um ESB-mál. Að sjálfsögðu leysir það ekki ágreining um afstöðuna til ESB hér frekar en annars staðar þótt fyrir liggi einhver sameiginlegur texti fulltrúa Íslands og ESB um aðildarskilmála Íslands. Blekkingu í þessa veru er helst haldið á loft undir lok kosningabaráttunnar þegar menn segja að best sé að ljúka viðræðum og bera niðurstöðuna undir þjóðina til að deilur um ESB verði að baki.

 

Breski dálkahöfundurinn Simon Jenkins segir í blaðinu The Guardian í dag, 26. apríl 2013:

„Kjósendur hafa aldrei borið minna traust til ESB. Þetta segir í forsíðufyrirsögn Guardian í dag. Í hverju einasta stóru Evrópuríki hefur traustið borið „verulegan hnekki“. Fyrir fimm árum var staðan sú að í engu landi, ekki einu sinni Bretlandi, var meira en helmingur kjósenda andvígur Evrópu [les: ESB] og flestir voru mjög hlynntir henni. Nú segir Eurobarometer, könnunarstofa sjálfs ESB, að vantraust sé 53% á Ítalíu, 56% í Frakklandi, 59% í Þýskalandi, 69% í Bretlandi og 72% á Spáni. ESB hefur misst traust tveggja þriðju íbúa innan sambandsins. Skiptir það máli?

Ekkert höfðar jafn sterkt til tilfinningarinnar vegna uppruna okkar en Evrópumál. Kjósendur kafa djúpt í eigið sálarlíf til að sætta sig við eða snúast gegn hugsjóninni um Evrópusambandið. Hver einasta frétt er sniðin í samræmi við það. Þeir sem bera í bætifláka fyrir ESB telja að fréttir vikunnar um afstöðu til sambandsins óhjákvæmilegar miðað við aðhaldsstefnuna, hún er almennt talin refsa venjulegu fólki fyrir glannaskap síðustu leiðtoga Evrópu. Þegar í harðbakkann slær leita kjósendur skjóls inna eigin þjóðar eða heimkynna. Þetta muni ekki vara lengi.

ESB-efahyggjumenn taka ekki undir þetta. Lýðræðissinnar eigi að taka tillit vilja meirihlutans þótt hann sé óþægilegur. „And-Evrópuhyggja“ hafði vaxið í Evrópu fyrir skuldakreppuna – sjáið þjóðaratkvæðagreiðslurnar um Lissabon-sáttmálann. Hún birtist í eflingu þjóðernissinnaðra flokka og hennar gætir mjög meðal þjóða sem sýndu ESB áður mikla hollustu, Spánverja, Ítala, Grikkja og Þjóðverja. José Ignacio Torreblanca, forstöðumaður European Council on Foreign Relations [hugveitu um Evrópumál] sagði um könnunina sem birt var í gær: „Skaðinn er orðinn svo mikill að það skiptir ekki máli hvort menn koma frá lána- eða skuldalandi [...] íbúarnir telja nú að verið sé að grafa undan lýðræði í löndum þeirra.“

Eitt er ástandið hér á landi og ágreiningur um ESB, annað að hér hafa setið við völd ráðherrar og þó einkum utanríkisráðherra sem lætur eins og allt sé í himna lagi innan ESB þegar þar logar allt í illdeilum og stuðningur almennings við samstarfið er í frjálsu falli eins og stuðningur við Samfylkinguna hér á landi.

Það hlýtur að verða eitt fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar að taka af skarið í ESB málinu, hætta viðræðum og skoða viðræðuferlið og samningsmarkmið frá grunni og ekki fara af stað að nýju án skýrs umboðs frá þjóðinni. Til þessa verða menn að gefa sér þann tíma sem þarf en ekki loka sig inni í einhverjum heimasmíðuðum tímafrestum.

Hver sem afstaða er til ESB-aðildar ræðst trúverðugleiki nýrrar ríkisstjórnar á Íslandi eftir kosningarnar á morgun af því hvort hún tekur á ESB-málinu af raunsæi eða heldur áfram blekkingariðju í anda fráfarandi stjórnarherra.

Ég treysti Sjálfstæðisflokknum best til að halda á farsælan hátt á ESB-málinu í samræmi við samþykktir landsfunda flokksins nú og áður. Þess vegna hvet ég lesendur síðu minnar til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í kosningunum á morgun.