25.4.2013 23:00

Fimmtudagur 25. 04. 13

Gleðilegt sumar!

Í Þýskalandi óttast innanríkisráðherrann að sprengjuárásin í Boston boði nýjar hættur sem steðji að hinum almenna borgara frá hryðjuverkamönnum; annars konar ódæðismönnum en starfa innan skipulagðra samtaka á borð við al-Kaída. Á ferð séu einmana úlfar sem sitji við tölvur heima hjá sér og forherðist við að horfa á myndbönd um ofstæki. Ráðherrann telur nauðsynlegt að fjölga eftirlitsmyndavélum og nefnir járnbrautastöðvar, flugvelli og skyndibitastaði. Á Evrópuvaktinni má lesa viðtal við ráðherrann sem birtist á vefsíðunni SpiegelOnline.

Hér á landi hefur Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra leitast við að slá á allar umræður um aðgerðir til að efla varðstöðu gegn samtökum sem geta ógnað öryggi almennra borgara og annarra með ofbeldisaðgerðum. Fyrir honum vakir að láta af störfum sem ráðherra er stóð vörð um rétt samtaka á borð við Saving Iceland til að starfa án gripið sé til forvirkra aðgerða gegn þeim. Viðleitni Ögmundar hefur staðið nauðsynlegri þróun á þessu sviði fyrir þrifum.

Öryggis- og lögreglumál hefur ekki borið hátt í aðdraganda kosninganna. Fyrir nokkru kom hins vegar út skýrsla sem sýndi að það skorti 3 milljarða til að koma lögreglumálum í viðunandi horf.  Ögmundur hefur skotið sér undan óhjákvæmilegum ákvörðunum um meiri sameiningu lögregluliða.

Of mikil óvissa ríkir um framtíð þyrlusveitar landhelgisgæslunnar. Bresk yfirvöld hrundu nýlega í framkvæmd áætlun um einkavæðingu leitar- og björgunarþyrlna á Bretlandseyjum. Reglur um opinber kaup setja stjórnvöldum strangar skorður við kaup á þyrlum eins og öðrum tækjum. Í núverandi stöðu hljóta stjórnvöld að verða að skoða alla kosti við öflun á þyrlum. Sé Ögmundur Jónasson samkvæmur sjálfum sér hefur hann örugglega haft þröngt ríkissjónarmið við mat sitt á lausn þyrluvandans.