8.4.2013

Margaret Thatcher kvödd

Þegar hugað er að störfum og stefnu Margaret Thacther sem andaðist í dag 87 ára gömul er alltof mikil einföldun fólgin í að lýsa henni sem baráttumanni fyrir peningahyggju og kapítalisma. Áhrif hennar voru miklu víðtækari. Rangt er að takmarka minninguna um hana við þetta eitt. Bent er á að henni hafi tekist að grafa svo undan trú manna á sósíalisma í Bretlandi að Verkamannaflokkurinn hafi að lokum tileinkað sér stefnu hennar um frjálsan markað og þar með áunnið sér vinsældir meðal kjósenda og náð völdum.

Þrek hennar og baráttuhugur fyrir málstað sem hún tileinkaði sér er hið eftirminnilegasta í fari hennar. Hæfni hennar til að hrinda hugmyndum í framkvæmd skilja eftir sig spor sem leitt hafa breskt þjóðfélag inn á nýjar og farsælli brautir en við blöstu á árum stöðnunar og félagslegrar upplausnar  sem ríkti þegar hún náði völdum í Íhaldsflokknum og ýtti þeim til hliðar sem hún taldi hálfvolga og án hugsjóna samboðna Bretum.

Sérkennilegasti kafli stjórnmálaferils Thatcher er þegar leiðtogasætið og forsætisráðherraembættið rann úr greip hennar og hún ákvað að reyna ekki í annað sinn hvort hún nyti meirihluta meðal þingmanna flokks hennar sem höfðu vald til að reka og ráða leiðtoga.

Innan Íhaldsflokksins boðaði hún hugmyndafræði sem átti ekki upp á pallborðið hjá öllum. Hún talaði gjarnan um „þá“ og „okkur“ innan flokksins en leit svo á að sér hefði tekist að „snúa“ mörgum „þeirra“ sem hún leiddi til æðstu valda í flokknum og ríkisstjórninni til fylgis og stuðnings við sig. Undir lok níunda áratugarins deildi hún við Nigel Lawson, fjármálaráðherra sinn, og Geoffrey Howe utanríkisráðherra um aðildina að ERM, gjaldmiðlasamstarfi ESB-ríkja. Hún vildi ekki aðild, Lawson hætti í ríkisstjórninni, hún svipti Howe embætti utanríkisráðherra, gerði hann að vara-forsætisráðherra og leiðtoga í lávarðadeildinni. Howe fyrirgaf henni þetta aldrei auk þess sem hann undi því illa hvernig hún niðurlægði hann hvað eftir annað á fundum ríkisstjórnarinnar.

Í minningargrein blaðsins The Daily Telegraph sem studdi Thatcher á valdatíma hennar segir að við upphaf tíunda áratugarins hafi hún aðeins átt einn öruggan stuðningsmann í forystusveit Íhaldsflokksins, Cecil Parkinson. Það var vegna andstöðu innan ríkisstjórnarinnar sem hún varð að víkja sem forsætisráðherra og flokksleiðtogi.

Í minningargreininni í The Daily Telegraph segir:

„Staða Thatcher á alþjóðavettvangi hafði einnig beðið hnekki sumarið 1990. Eftir að stjórn Sovétmanna á Austur-Evrópu féll hlupu fréttaskýrendur til og vildu kasta stríðsmönnum kalda stríðsins á öskuhaug sögunnar með heimsveldi hins illa. George Bush hafði tekið við völdum af Ronald Reagan, hinum gamla sálufélaga Thatcher, í Bandaríkjunum. Nýi forsetinn galt varhug við áhrifum hennar og hvattur af ráðgjöfum sínum þótti honum miklu skipta að ýta undir forystuhlutverk Þýskalands, Thatcher hafði staðið gegn sameiningu þess fram að (og raunar fram yfir) síðustu mínútu.  Á meginlandi Evrópu stóð Thatcher hins vegar frammi fyrir áskorunum sem reyndust henni ofviða af því að hana skorti nægan stuðning á heimavelli.

Afstaða Margretar Thatcher til samrunans í Evrópu breyttist meira en hún vildi nokkurn tíma viðurkenna. Upphaflega hafði hún hóflegan áhuga á samvinnu undir merkjum Evrópubandalagsins [EB eins og það hét á þeim tíma]. Á fyrstu árum sínum sem forsætisráðherra tókst henni að ná sínu fram í fjármálaátökum við aðra EB-leiðtoga – deilan snerist um það sem hún kallaði án sáttfýsi sókn þeirra eftir „okkar peningum“ – sigrar hennar í þessum átökum urðu til þess að hún fylltist að nokkru ofmetnaði og taldi að unnt yrði með hörku að ná breskum sjónarmiðum fram gegn samaðilunum innan EB. Af þessari trú leiddi síðan að hún samþykkti að afsala Bretum neitunarvaldi á ýmsum sviðum í viðleitninni við að skapa einn markað, á þeim grunni yrði „raunverulegur“ innri markaður reistur. Þegar á reyndi var aukið vald framkvæmdastjórnar ESB undir stjórn hins öfluga franska sósíalista Jacques Delors notað til að vinna að framgangi allt annarra mála. Thatcher óttaðist æ meira hátimbraðar yfirlýsingar um evrópskt sambandsríki.

Þetta leiddi til hinnar áhrifaríku Bruges-ræðu hennar 1988, þar steig hún á stokk með byltingarfána gegn evrópskri miðstjórn á kostnað þjóðríkisins. Þessi afstaða hennar naut lítils stuðnings í Mið-Evrópu; þótt flestir í Íhaldsflokknum fögnuðu ræðunni innilega olli hún reiði og hneykslan meðal lítils en áhrifamikils hóps EB-sinna sem hafði hlutfallslega of mikinn styrk innan ríkisstjórnarinnar miðað við almenna stöðu í flokknum. Á síðasta leiðtogafundi EB-ríkja sem Thatcher sótti í Róm í október 1990 var hún bæði einangruð vegna myntsambandsins (EMU) og þróunar í átt til evrópsks stjórnmálasambands. Þegar hér var komið sögu höfðu flokksfélagar hennar ekki lyst á nýjum átökum við forystumenn í Evrópu. (Sjálf hafði hún viðurkennt veika stöðu sína með því að samþykkja ítrekaðar óskir fjármálaráðherra síns, Johns Majors, um að breska pundið yrði hluti af ERM; það gerðist 5. október 1990.)

Þegar hún sneri heim frá Róm var hún þó ekki í neinu skapi til að gera málamiðlanir. Í ræðu í neðri deild breska þingsins hafnaði hún opinberlega Delors-áætluninni um evrópskt sambandsríki með eigin þingi, framkvæmdavaldi og öldungadeild – hún sagði um hvern þessara þátta: „Nei! Nei! Nei!“ Vegna þessarar djörfu en hvatvísu framgöngu sagði Howe af sér ráðherraembætti og flutti síðan sögulega afsagnarræðu í neðri deildinni sem dró dilk á eftir sér. Hún varð til þess að Michael Heselitine ákvað að gefa kost á sér sem leiðtogi Íhaldsflokksins.

Thatcher var illa búin undir slaginn. Árið áður fékk Sir Anthony Meyer aðeins 33 atkvæði í leiðtogakjöri en hann viðurkenndi að hafa verið „staðgengill“ fyrir Michael Heseltine. Að þessu sinni yrði baráttan miklum mun alvarlegri. Thatcher naut þess að alþjóðleg stjarna hennar hafði risið að nýju eftir innrásina í ríki Saddams Husseins í Írak í ágúst. Staðfesta hennar og einstök reynsla hafði fengið mikið lof frá Bush forseta.  Frú Thatcher var eftir þetta sjálf alltaf full fyrirlitningar í garð samstarfsmanna sinna fyrir landráð með því að bola sér á brott þegar þjóðin stóð á barmi vopnaðra átaka.

Þessi sama tenging við alþjóðlega viðburði leiddi því miður til þess að hún var fjarverandi á leiðtogafundi á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í París, reyndist það henni pólitískur dauðadómur. Baráttu hennar var illa stjórnað en hún einkenndist einnig af ofursigurvissu og viljaleysi höfuðpersónunnar til að skipta sér sjálf af málinu. Fyrsta atkvæðagreiðslan var 20. nóvember, Thatcher fékk 204 atkvæði en Heseltine 152, 16 skiluðu auðu – atkvæðin reyndust rétt of fá til að koma í veg fyrir aðra atkvæðagreiðslu. Valdastaða hennar hafði verið löskuð meira en við varð ráðið.

Þegar hún kom aftur til London leitaði hún stuðnings innan ríkisstjórnarinnar, hún ræddi við hvern ráðherra einslega. Með grunsamlega svipuðum rökum lýsti mikill meirihluti ráðherranna þeirri skoðun að hún gæti ekki sigrað. Hinn 22. nóvember [1990] tilkynnti Thatcher ríkisstjórn sinni grátklökk að hún mundi draga sig í hlé fyrir aðra atkvæðagreiðsluna. Síðdegis sama dag flutti hún síðustu, og ef til vill bestu, ræðu sína í neðri málstofunni og lýsti árangri stjórnar sinnar. Sex dögum síðar sagði hún af sér eftir að hafa lýst öflugum stuðningi við framboð Johns Majors sem hún taldi (einnig ranglega) að væri sama sinnis og hún sjálf.“

Hér skal ekki vitnað meira í The Daily Telegraph. Sjónvarpsstöðin Arte hefur gert frábæra heimildarmynd um fall Thatcher þar sem rætt er við marga helstu þátttakendur aðra en hana sjálfa og ráðherrar í ríkisstjórn hennar segja frá afstöðu sinni.

Fall hennar tengist átökunum sem enn eru innan Íhaldsflokksins um afstöðuna til Evrópusambandsins. Innan flokksins hefur elítan sem vann að því að koma Thatcher frá völdum haft skoðanir hins almenna flokksmanns á ESB-málum að engu. Nú hefur David Cameron forsætisráðherra mótað stefnu sem miðar að sérstöðu Breta innan ESB. Takist honum að skapa hana á viðunandi hátt að eigin mati ætlar hann að mæla með aðild að nýju ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu sem efnt verður til fyrir árslok 2017. Í atkvæðagreiðslunni fá Bretar tækifæri til að segja af eða á um aðild að ESB.

Ég starfaði sem blaðamaður með áherslu á stjórnmál og erlend málefni allan valdatíma Thatcher og dáðist að framgöngu hennar, stefnu hennar og stefnufestu.  Þá var skemmtilegt að fylgjast með samvinnu hennar og Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta í átökunum við Sovétmenn. Þau hefðu þó ekki náð þeim árangri sem leiddi til hruns Sovétríkjanna nema með aðstoð tveggja jafnaðarmanna eða sósíalista, Helmuts Schmidts í Þýskalandi og François Mitterrands í Frakklandi. Nú er Schmidt (f. 1918) hinn eini af þessum fjórmenningum á lífi, hann lætur enn að sér kveða í þýskum stjórnmálum.

Það er til marks um styrk Thatcher og áhrifamátt að enn vekur hún heitar tilfinningar með og á móti. Sumir treystu sér meira að segja ekki til að sjá Meryl Streep leika hana í nýlegri kvikmynd af því að hún væri sýnd of ellimóð. Hún var hins vegar orðin það þegar hún kvaddi. Hún verður borin til grafar með svipaðri virðingu og forsætisráðherrann sem hún dáði mest, Sir Winston Churchill. Sú ákvörðun á örugglega eftir að valda deilum eins og svo margt annað í tengslum við hina mikilhæfu konu.