13.4.2013 22:05

Laugardagur 13. 04. 13

Bjarni Benediktsson sagði á 700 manna fundi í Garðabæ að hann mundi halda áfram sem formaður Sjálfstæðisflokksins þrátt fyrir niðurstöðu skoðanakönnunar í Viðskiptablaðinu frá fimmtudeginum 11. apríl sem sýndi að líklega fengi Sjálfstæðisflokkurinn fleiri atkvæði væri hann ekki leiðtogi flokksins heldur Hanna Birna Kristjánsdóttir varaformaður.

Þessi uppákoma innan Sjálfstæðisflokksins er hið dramatískasta sem gerst hefur í kosningabaráttunni til þessa. Forystumenn flokksins Bjarni og Hanna Birna héldu vel á málinu og sýndu að þau standast þrýsting vegna óvæntra atvika. Starf stjórnmálamanna snýst að verulegu leyti um viðbrögð við hlutum sem ekki eru á valdi þeirra.

Að venju kallaði fréttastofa ríkisútvarpsins á stjórnmálafræðing til að setja fundinn í Garðabæ í ljós sem fréttastofan telur við hæfi. Kallað var á Birgi Guðmundsson, stjórnmálafræðing á Akureyri, sem sat ekki fundinn en sagði hann sýna að málinu væri ekki lokið og Hanna Birna hefði „skaðast á málinu“. Fundurinn hefði þó „líklega náð að lágmarka þann skaða sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði getað orðið fyrir“ vegna málsins. „Einnig megi halda því fram að málið hafi ýtt við flokksmönnum og verið eins konar rafstuð á þá og þeim hafi ofboðið aðfarirnar.“

Já, „aðfarirnar“, þær fólust í skoðanakönnun og birtingu niðurstöðunnar í Viðskiptablaðinu. Þessi orðnotkun er harkaleg en fellur að viðleitni til að breyta málinu í samsæri innan Sjálfstæðisflokksins. Fyrir því eru hins vegar engar sannanir. Þvert á móti er auðvelt að sýna að menn segja ósatt í þágu þess málstaðar eins og Hannes Hólmsteinn Gissurarson bendir á hér. Karl Th. Birgisson sem kemur við sögu í frásögn Hannesar Hólmsteins var framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar um tíma.

Birgir segir málinu ýtt „eitthvað inn í framtíðina“, það bíði „úrlausnar“. Hvað bíður úrlausnar? Það er ekki skýrt. Birgir færir ekki heldur nein rök fyrir hvers vegna atvikið hafi ekki áhrif á kjósendur til eða frá, breyti í raun engu, þetta er tilfinning hans og hefði fréttastofan getað leitað til hvers sem er í þeim tilgangi að kynnast viðhorfi sem er reist á tilfinningu.

Birgir segir að „ekki [hafi] mikið breyst gagnvart kjósendum“ og skautar framhjá sjónvarpsviðtalinu við Bjarna að kvöldi fimmtudags 11. apríl, einu af þessu sjónvarpsviðtölum sem geta skipt sköpum fyrir stjórnmálamann og hefur örugglega gagnast Bjarna. Birgir leggur lykkju á leið sína til að stimpla Hönnu Birnu sem „klækjapólitíkus“ án þess að hafa nokkuð fyrir sér annað en eigin skoðun og stimpil annarra.