8.4.2013 22:20

Mánudagur 08. 04. 13

Hvergi annars staðar en á Evrópuvaktinni var vísað til fréttar í The New York Times um eftirvæntingu í Peking vegna komu Jóhönnu Sigurðardóttur og Jónínu Leósdóttur. Kínverjar hafa áhuga á hvernig tekið verður á móti samkynhneigðu pari, tveimur konum, í opinberri heimsókn. Það er furðulegt að frásögnin í bandaríska blaðinu veki ekki áhuga utan Evrópuvaktarinnar en að hún birtist þar sýnir enn hve Evrópuvaktin segir vel frá málum sem snerta hagsmuni Íslands. Hér má lesa fréttina.

Ráðherrar nýta nú síðustu daga sína í embætti til að heimsækja fjarlæg lönd. Ferðin til Kína er einna furðulegust. Enginn samningur um fríverslun Íslands og Kína hefur verið kynntur . Af fundargerðum utanríkismálanefndar alþingis má ráða að málið hafi ekki verið á dagskrá nefndarinnar síðan 17. janúar 2013. Hefur fullbúinn fríverslunarsamningur við Kína verið lagður fyrir utanríkismálanefnd alþingis?

Ef stjórnarflokkarnir svara ekki spurningu um þetta ætti stjórnarandstaðan að gera það. Hefur hún samþykkt fríverslunarsamning við Kína?

Í dag skrifaði ég pistil um Margréti Thatcher látna og má lesa hann hér.