20.4.2013 20:00

Laugardagur 20. 04. 13

Það skiptust á skin og skúrir í Skálholti í dag,  jörð er alhvít nú undir kvöld. Engin truflun var á qi gong kyrrðardögunum vegna þessa enda erum við í góðu yfirlæti í Skálholtsskóla.

Þess verður minnst í sumar að 50 ár eru liðin frá vígslu Skálholtsdómkirkju og hlýtur kirkjuráð sem fer með æðsta vald í málefnum staðarins að sjá til að þessara tímamóta verði minnst á verðugan hátt. Skálholtshátíðin sumarið 1963 er enn í minnum höfð enda var mjög til hennar vandað.

Á Skálholtshátíðinni afhenti ríkið kirkjunni Skálholt til eignar, varðveislu og nýtingar. Baráttan fyrir endurreisn Skálholts var til marks um vilja íslensku þjóðarinnar til að skerpa sjálfsmynd sína og leggja rækt við meginþætti í arfi sínum. Það voru innan við 20 ár liðin frá því að lýðveldi var stofnað þegar kirkjan var reist og vígð. Stjórnvöld og einstaklingar á Norðurlöndunum létu sig málið mikið varða og færðu Skálholti góðar gjafir.

Í ávarpi sem ég flutti í Reykholti á dögunum þegar opnuð var sýningin Saga Snorra sagði ég meðal annars:

„Sýningin dregur athygli að fleiri stöðum en Reykholti. Hún minnir á tenginguna við Þingvelli, Skálholt og Odda á Rangárvöllum. Allt eru þetta staðir sem settu mikinn svip á tíma Snorra. Ég tel að á líðandi stundu beri að huga að tengslum þessara staða og mynda keðju menningar- og sögustaða sem teygir sig frá Reykholti um Þingvöll og Skálholt að Odda. Hver hlekkur í keðjunni haldi sinni sérstöðu en saman myndi þeir heild sem fulltrúar ritlistar, stjórnmála, kristni og menningartengsla við umheiminn.“

Það færi vel á að kirkjuráð tæki frumkvæði til samstarfs af þessu tagi í tilefni af 50 ára afmæli Skálholtsdómkirkju í sumar.