6.4.2013 22:10

Laugardagur 06. 04. 13

Nokkrar umræður hafa orðið í netheimum í tilefni af því sem ég skrifaði hér í gær um flöggun ritstjóra Fréttatímans á Lögbergi til að ná í mynd af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins. Umræðurnar urðu meðal annars á dv.is. Hvað vakir fyrir þeim sem halda úti dv.is að veita þessum óhróðri farveg um síðu sína, að hafa þar opið holræsi?

Hið einkennilega við netumræðurnar á dv.is er að þeir sem taka þátt í þeim forðast að ræða efnið sem dv.is notar til að hleypa umræðunum af stað. Að mestu eru þetta óvildarskrif um þann sem setur fram upphaflegu skoðunina og útleggingin snýst um að ráðast á hann eða hana persónulega. Þetta er tilgangslaust snakk, oftast reist á óvild. Það bætir ekki neinni þekkingu við upphafsefnið. Höfundur efnisins skiptir meira máli en það sem hann segir. Þetta sýnir best hve sjálfhverfir þeir eru sem láta ljós sitt skína á dv.is. Þeim er almennt sama um annað en eigin skoðanir eða óvild í garð annarra.

Kosningarnar og afstaða manna til stjórnmálaflokkanna eða þeirra sem leiða þá setja svip sinn á efni á fésbókinni. Þar sem menn ráða vinum sínum er líklegt að þeir þurrki þá einfaldlega af listum sínum sem ekki eru sömu skoðunar þegar harkan í kosningabaráttunni eykst. Menn endi því á að deila skoðunum með samherjum í  stað þess að boða fagnaðarerindið til þeirra sem þurfa á því að halda.