16.4.2013 20:10

Þriðjudagur 16. 04. 13

Enginn þarf að efast um að reynsluboltarnir í Samfylkingunni, formennirnir fyrrverandi, Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson, hafa litið á það sem mikilvægt framlag sitt til að styrkja eigin stöðu og Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni að fara til Peking tveimur vikum fyrir kjördag og skrifa undir fríverslunarsamning við Kína. Þau hefðu ekki farið nema vegna þess að litið var á þetta sem kosningabragð eins og allt annað sem ráðherrar rembast við að gera nú fáeinum dögum fyrir kosningar.

Af öllu sem ráðherrar taka sér fyrir hendur á þessum dögum er svo mikil kosningalykt að það veikir trúna á að innistæða sé að baki samningunum, skóflustungunum og opinberu fyrirheitunum öllum. Mesta pólitíska hrakförin hefur þó verið farin til Kína ef marka má viðbrögð meðal forystumanna Alþýðusambands Íslands sem sumir hafa setið á þingi fyrir Samfylkinguna eins og Magnús M. Norðdahl sem segist beinlínis skammast sín fyrir  flokkinn. Magnús er deildarstjóri lögfræðideildar Alþýðusambands Íslands og fyrsti varaþingmaður Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi og skrifar meðal annars á fésbókarsíðu sína:

Eina glætan er sú að gegn þessi ráðslagi [undirritun fríverslunarsamningsins við Kínverja] hefur núverandi formaður Samfylkingarinnar  [Árni Páll] verið settur til hliðar sem undirstrikar þau mistök sem það voru að skilja á milli þess embættis og þeirra valda sem því raunverulega eiga að fylgja þegar flokkurinn er í stjórn. Kjördagur verður erfiður fyrir marga Jafnaðarmenn.”

Magnús lifir í trú á að Árni Páll hefði stöðvað för Össurar til Kína hefði hann orðið forsætisráðherra þegar hann tók við formennskunni í flokknum. Er líklegt eins og Össur talar að nokkur mannlegur máttur hefði haldið aftur af honum? Árna Páli hefði örugglega ekki tekist það. Hvar hefur komið fram að Árni Páll hafi einhverjar efasemdir um nauðsyn fríverslunarsamnings við Kína? Þegar Árni Páll var viðskiptaráðherra haustið 2011 lagði hann fram minnisblað í ríkisstjórn um ágæti þess að Huang Nubo keypti Grímsstaði á Fjöllum. Katrín Júlíusdóttir, núv. varaformaður Samfylkingarinnar, hét því sem iðnaðarráðherra að veita Huang Nubo ráðgjöf svo að hann næði markmiði sínu á Grímsstöðum þrátt fyrir andstöðu Ögmundar Jónassonar.

Kínverjar hafa fulla ástæðu til að ætla að ekkert stjórnmálaafl á Íslandi sé þeim vinveittara en Samfylkingin.