3.4.2013 21:42

Miðvikudagur 03. 04. 13

Í hádeginu flutti ég erindi í Rotary-klúbbi Reykjavíkur um öryggis- og varnarmál og má lesa það hér.

Viðtal mitt við Unni Brá Konráðsdóttur, þingmann Sjálfstæðisflokksins, sem birtist á ÍNN 27. mars er komið á netið og má sjá það hér.

Í Hardtalk  á BBC í dag ræddi Stephen Sackur við Christopher A. Pissarides frá Kýpur. Hann er prófessor í London School of Economics og Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði frá 2010. Viðtalið má sjá hér 

Það er fróðlegt að hlusta prófessorinn lýsa stöðunni á Kýpur og færir áhorfandann nálægt því sem er að gerast. Prófessorinn er ómyrkur í máli þegar hann gagnrýni evru-ráðherrahópinn og ómarkviss vinnubrögð hans. Frásögn hans sýnir enn á ný hve mikið ber á milli manna og þjóða á evru-svæðinu.

Hann telur ekki óeðlilegt að lítil ríki menntaðra þjóða sem eigi ekki margra kosta völ í samkeppni við stærri ríki sjái sér hag af því að reka fjármálaþjónustu. Þau fari að öllum ESB-reglum en lendi samt í vandræðum af því að þær séu sniðnar að þörfum stærri ríkja öflugum eftirlitsstofnunum og meiri hemil á þenslu fjármálakerfisins. Sérstakar aðstæður skapist á hverjum stað. Á Kýpur hafi tveir stærstu bankarnir vaxið meira en hæfði hagkerfinu og þeir hafi því leitað til „móðurríkisins“, Grikklands, og fjárfest þar sem hafi riðið þeim að fullu við hrunið í Grikklandi. Stærð bankakerfis umfram hagkerfi viðkomandi ríkis segi alls ekki alla söguna, þannig sé bankakerfið í Lúxemborg mun stærra miðað við landsframleiðslu (22 sinnum) en á Kýpur (átta sinnum).

Þá gagnrýnir prófessorinn þá meginhugsun að viðskiptavinir banka, eigendur bankareikninga, séu látnir leggja fé sitt af mörkum til að bjarga viðkomandi banka. Þetta stangist á við meginregluna um að viðskiptavinir banka fái ekkert í aðra hönd þótt bankinn stórgræði. Hvers vegna skyldu þeir verða látnir fjármagna tapið ef þeir fá ekki að njóta gróðans.

Þegar hlustað er á prófessorinn sem nú er meðal helstu ráðgjafa Kýpurforseta skýrist að nokkru hvers vegna allt fer friðsamlega fram við stjórn landsins. Hann flytur mál sitt öfgalaust og af festu. Hann minnti mig á Þráin Eggertsson, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, sem ávallt talar með rödd skynseminnar og skýrir það sem helst ber að huga að í hagfræðilegum efnum hér á landi.