22.4.2013 22:30

Mánudagur 22. 04. 13

Öryggisgæslu á flugvöllum má að verulegu leyti rekja til þess að Bandaríkjastjórn leit þannig á að hryðjuverkamenn mundu leggja leið sína til Bandaríkjanna. Hugmyndafræðin að baki hinnu miklu öryggisleit og gæslu á flugvöllum og við hafnir er að stemma stigu við komu hryðjuverkamanna til Bandaríkjanna. Þar hafa menn ekki reiknað með að innan landamæra Bandaríkjanna kæmu til sögunnar menn sem mundu grípa til hryðjuverka í nafni íslam eða annarra trúarbragða eða hugsjóna.

Hryðjuverkið í Boston fyrir viku og fréttir af þeim sem að því stóðu sýna að í Bandaríkjunum getur hugarfar afmyndast á þann hátt að menn ákveði að valda meðborgurum sínum tjóni með því að standa að ódæði, hryðjuverki, í þeim tilgangi að sem flestir falli. Vakið hefur athygli að Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur þótt hógværari en ýmsir aðrir bandarískir stjórnmálamenn í orðum um hryðjuverkið og viðbrögð við því. Er ekki vafi á að þetta á meðal annars rætur að rekja til að stóryrtar yfirlýsingar af hálfu forsetans kalla á stórkallaleg opinber viðbrögð. Ætli Bandaríkjastjórn að grípa til þeirra á heimavelli með auknu eftirliti og afskiptum af einstaklingum kynni ýmsum þótt vegið að réttindum sínum á óbærilegan hátt.

Hér skal engu spáð um hver verður afleiðing hryðjuverksins í Boston. Eftir atburðina í barnaskólanum í Sandy Hook í Newtown, Connecticut 14. desember 2012 þegar tuttugu börn og sex kennarar féllu fyrir byssu Adams Lanza urðu kröfur háværar um hertar reglur um byssueign. Nýlega felldi öldungadeild Bandaríkjaþings lagafrumvarp um slíkar reglur.  Spurning er hvort þingmenn taki til við að semja og samþykkja auknar heimildir til eftirlits og afskipta af þeim sem eru innan landamæra Bandaríkjanna eftir hryðjuverkið í Boston.

Hinn 10. apríl ræddi ég við Pál Winkel fangelsismálastjóra á ÍNN og má sjá viðtalið hér.