27.4.2013 23:55

Laugardagur 27. 04. 13

Samfylkingin tapaði illilega í þingkosningunum, Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra lýsti úrslitunum sem „hamförum“ fyrir sinn flokk. Hann taldi sig samt í færum á kjördagskvöld til að taka mikið í upp í sig um aðra flokka. Líklegt er að stóryrði og glamur Össurar í aðdraganda kosninganna hafi spillt fyrir flokki hans.

Af stjórnarflokkunum er útreið Samfylkingarinnar verri en VG – sá mikli munur er á stefnu flokkanna að Samfylkingin lagði áherslu á ESB-aðild en VG ekki. Úrslit kosninganna eru algjört vantraust á Össur og ESB-stefnu hans. Dytti nokkrum flokki í hug að halda áfram á þeirri óheillabraut að kosningum loknum sýndu forystumenn þess flokks mikið dómgreindarleysi.

Þegar þetta er skrifað er tap Samfylkingarinnar og brotthvarf ríkisstjórnarinnar stærstu tíðindi kosninganna.

Hér verður ekki lagt út af þeim tölum sem birtar hafa verið. Þær breyta engu um þá staðreynd að ný ríkisstjórn verður að glíma við mikinn vanda. Ríkisstjórninni var hafnað af því að fólk hefur fengið nóg af stjórnarháttum hennar.

Það voru taktísk mistök hjá ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur að sitja út kjörtímabilið í stað þess að rjúfa þing þegar fyrir lá að kjörtímabilið dygði ekki til að ljúka kvótamálinu, stjórnarskrármálinu og ESB-málinu. Hér hefur oft verið lýst undrun yfir að þingflokkur Samfylkingarinnar tæki ekki í taumana. Hann hefði ekki minnkað eins mikið og raun er ef fyrr hefði verið kosið.

Ástæðan fyrir þrásetu ríkisstjórnarinnar er skapgerð Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún sat lengur en hún í raun gat og með hverjum mánuði sem leið minnkaði traust í hennar garð og fylgi flokks hennar.

Það kæmi ekki á óvart að verkefni nýrrar ríkisstjórnir reyndust svo hrikaleg að nýja kjörtímabilið yrði stutt og þeir sem í stjórnina setjast veldu þann kost að leggja mál að nýju í dóm kjósenda fyrr en síðar til að fá nýtt umboð.