17.4.2013 21:55

Miðvikudagur 17. 04. 13

Margaret Thatcher var jarðsungin í dag. Athöfnin var hátíðleg en látlaus í St. Paul‘s dómkirkjunni í London, ef unnt er að nota orðið „látlaus“ þegar um er að ræða útför með þátttöku breska hersins þar sem 700 hermenn standa heiðursvörð og 4.000 lögreglumenn standa á götum úti til að gæta öryggis. Mikill mannfjöldi stóð við leiðina sem kistan var flutt úr Westminster í dómkirkjuna, hluta leiðarinnar á fallbyssuvagni. Skotið var á mínútu fresti úr fallbyssu við Tower of London en Big Ben sló ekki á meðan útförin fór fram.

Umbúnaðurinn um jarðarförina var hinn sami og þegar Sir Winston Churchill var jarðsunginn 1965. Líklega hefur verið sjónvarpað beint frá þeirri athöfn til Breta en ekki til alls heimsins eins og nú var gert. Árið 1965 var íslenska sjónvarpið ekki komið til sögunnar, í dag var það þögult um Thatcher og útför hennar nema í fréttatíma. Stöð 2 sló ríkissjónvarpinu við með því að sýna heimildarmynd um Thatcher í kvöld.

Hið einkennilega við ríkisútvarpið er að það virðist hafa glatað hæfileikanum til að tileinka sér viðburði samtímans til að hefja dagskrá sína á áhugavert stig. Dagskráin endurspeglar einhvers konar tilvistarvanda sem maður verður ekki var hjá ljósvakamiðlum sem lifa og hrærast í samtímanum og taka á viðburðum hans með opnara hugarfari en einkennir efnistök á ríkisútvarpinu.