5.4.2013 23:00

Föstudagur 05. 04. 13

Framsóknarmenn hafa verið miður sín í dag vegna viðtals sem Sigríður Dögg Auðunsdóttir, ritstjóri Fréttatímans, tók við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, flokksformann framsóknar, þar sem hann er kynntur til sögunnar sem næsti forsætisráðherra Íslands og birt mynd af honum á Lögbergi fyrir framan blaktandi fána. Í viðtalinu sem birtist í tbl. Fréttatímans sem er dags. 5. til 7. apríl segir meðal annars:

„Við [Sigmundur Davíð, Sigríður Dögg og Hari ljósmyndari] tökum upp léttara hjal á leið að Almannagjá. Ég tilkynni Sigmundi að ég sé með fána með mér því ég hafði útskýrt fyrir honum fyrr um daginn að pælingin væri að vera með blaktandi fána í bakgrunni. Ég bjóst hins vegar ekki við því að verið væri að flagga á Þingvöllum – sem reyndist rétt. Við röltum þrjú upp að útsýnispallinum og fánastönginni og ég hefst handa við að binda fánann á stöngina. Sigmundur lætur sem hann sjái mig ekki þegar ég gef honum bendingu um að koma. Ég var að vona að hann fengist til að draga fánann að húni. Það hefði verið flott forsíðumynd.

Hann er hins vegar ófeiminn við að láta stilla sér upp á hverri klettasyllunni á fætur annarri þótt ég sé dauðhrædd um að tvímenningunum skriki fótur. Það gerist sem betur fer ekki en uppstillingin vekur athygli hinna fjölmörgu ferðamanna sem komnir eru á þennan forna þingstað og eru þeir myndaðir í bak og fyrir. Þegar rétta myndin er komin – eftir dágóða stund – röltum við til baka. Sigmundur er afskaplega þægilegur og viðkunnalegur þótt tilhugsunin um að hann sé að öllum líkindum verðandi forsætisráðherra sé óneitanlega framandi.“

Ég sé ekki að framsóknarmenn geri athugasemd við þennan kafla í hinu dæmalausa viðtali. Í huga þess sem veit um helgi Þingvalla, Lögbergs og fánastangarinnar sem þar stendur er í þessum orðum lýst dæmalausu virðingar- og dómgreindarleysi allra sem hlut eiga að máli. Er með ólíkindum ef Þingvallanefnd og þjóðgarðsvörður geri ekki opinbera athugasemd við þá framgöngu sem þarna er lýst. Er svo komið að hver sem er getur komið með fána í farteskinu, dregið hann að húni á Lögbergi og tekið myndir af vild til að auglýsa sig sem næsta forsætisráðherra? Eða jafnvel kynnt sig í öðrum tilgangi?

Þá er ástæða til að spyrja: Er ekki flaggað daglega á Lögbergi með ríkisfánanum?