10.4.2013 17:40

Miðvikudagur 10. 04. 13

Í dag ræddi ég við Pál Winkel fangelsismálastjóra í þætti mínum á ÍNN. Þátturinn verður frumsýndur klukkan 20.00 og síðan sýndur á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun.

Í síðustu viku var tekin fyrsta skóflustunga að nýju fangelsi á Hólmsheiði, er það fyrsta sérhannaða fangelsið hér á landi frá því að Hegningarhúsið við Skólavörðustíg kom til sögunnar fyrir um 140 árum.

Í um 50 ár hefur verið rætt um nauðsyn þess að reisa nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu en gangi áætlanir eftir verður hið nýja fangelsi komið til sögunnar árið 2015. Eins og þeir munu sjá sem horfa og hlusta á samtal okkar Páls er tímabært að stíga þetta stóra skref núna. Þeim sem dæmdir eru til refsingar hefur fjölgað mikið hin síðari ár.

Í kvöld var sýndur þáttur á norsku sjónvarpsstöðinni NRK 2 um áhrif gossins í Eyjafjallajökli á bændur á þremur bæjum á Þorvaldseyri og í Önundarhorni  Eyjafjöllum og í Fljótsdal, innsta bænum í Fljótshlíð. Skemmtilegur og fróðlegur þáttur.