29.4.2013 21:40

Mánudagur 29. 04. 13

Eftir fyrsta dag þar sem rætt er um stjórnarmyndun hefur Birgitta Jónsdóttir pírati sagt að hún ætli ekki að taka þátt í vinnunni á neðri hæðinni. Píratar ætli ekki í ríkisstjórn.

Guðmundur Steingrímsson frá Bjartri framtíð hlýtur lýsir ekki neinni skoðun. Þessi sérkennilega fælni hjá stjórnmálamanni að láta við það sitja að gera alltaf skoðanir annarra tortryggilegar hlýtur að fæla menn frá að ræða við Guðmund um stjórnarmyndun.

Tveir hafa dottið upp fyrir á fyrsta degi . Þá eru fjórir eftir.

Árni Páll Árnason, formaður  Samfylkingarinnar, sagði á Bessastöðum:

„Við fórum [Ólafur Ragnar Grímsson] yfir stöðuna og ræddum mögulegar stjórnarmyndanir. Ég sagði það sem ég hef áður sagt að mér finnst einboðið að formaður  Framsóknarflokksins fengi stjórnmyndunarumboðið í ljósi þingkosninganna, hann er auðvitað stærsti sigurvegari  kosninganna.“

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, varðist allra frétta á Bessastöðum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagðist hafa rætt við formenn annarra flokka á óformlegan hátt, lengst við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, sem  var einlægastur og sagði mest bitastætt eftir fundinn með forsetanum. Bjarni sagði:

„Ég er þeirrar skoðunar að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn ættu að setja kraft í viðræður sín í milli núna og geri ráð fyrir því að við gerum það strax í dag.

Það eru miklar væntingar úti í þjóðfélaginu um kjarabætur á komandi árum. Þess vegna skiptir máli að menn séu með samtaka stjórn og öflugan þingmeirihluta til að grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana. Forsetanum er umhugað um að hér takist að mynd sterka stjórn með skýra stefnu.

Ég er svo sannarlega tilbúinn til þess að láta á það reyna  að mynda ríkisstjórn ef til þess kæmi undir okkar forystu. En mér finnst ekki rétt af mönnum að setja sjálfa sig í forgrunn við þær aðstæður sem eru núna. Nú erum við að reyna vinna þjóðinni gagn, og það er málefnalega staðan sem skiptir öllu; stjórnarsáttmálinn og stefnan sem eiga að vera í forgrunni. Við sem sá flokkur sem naut mests fylgis í kosningunum erum að sjálfsögðu tilbúin að rísa undir því trausti sem okkur er sýnt með því.“

Ætlar Ólafur Ragnar að rugga bátnum eða velja einföldu leiðina?