11.4.2013 23:00

Fimmtudagur 11. 04. 13

Í Viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag birtist viðtal við Jón Guðmann Pétursson, forstjóra Hampiðjunnar, sem er alþjóðlegt þjónustufyrirtæki við sjávarútveg. Jón Guðmann hefur því náin kynni af sjávarútvegi og umræðum um um hann í mörgum löndum. Í viðtalinu segir hann meðal annars:

„Hampiðjan er með starfsemi víða um heim, og við heyrum hvergi talað um sjávarútveg með sama hætti og er í tísku hér. Engu að síður hefur kvótakerfi rutt sér til rúms í mörgum löndum, eins og t.d. í Danmörku og Noregi. Kvótakerfið hefur skapað mikið hagræði í greininni, mörg fyrirtæki sem glímdu við taprekstur hafa náð að snúa rekstrinum mjög til betri vegar og útgerðir í þessum löndum hafa fjárfest grimmt í nýjum og glæsilegum skipum. Engu að síður hef ég ekki orðið var við, að talað sé um sjávarútveginn í þessum löndum með líkum hætti og hér.

Íbúar í Kaupmannahöfn virðast ekki vera stöðugt uppteknir af því að útgerðir í Hirtshals eða Thyborön á Jótlandi séu reknar með hagnaði. Hvað þá að þeir heimti hagnaðinn gerðan upptækan í ríkissjóð. Áður en kvótakerfið kom til sögunnar hér á landi gengu útgerðirnar illa og oft þrautin þyngri að fá reikningana greidda hjá þeim. Þær áttu margar í stökustu vandræðum. Það er ekki lengra síðan en 1988 að stofnaður var opinber sjóður með skattfé sem átti að bjarga þeim útgerðum sem hægt var að bjarga, að sögn þáverandi forsætisráðherra. Nú er vandinn sem sumir stjórnmálamenn sjá helstan í landinu að útgerðir hagnast.

Ríkisstjórnin hefur með atlögum sínum að sjávarútveginum svipt hann framtíðarsýninni. Þegar svo ber undir hætta fyrirtækin að skapa sér tækifæri til framtíðar, að þróa, fjárfesta og sækja fram. Það er umtalað í alþjóðlegum sjávarútvegi hve gömul íslensku skipin eru orðin. Það er auðvelt fyrir fólk að setja sig í sömu spor; ef það veit ekki hvort það hafi atvinnu og tekjur að ári liðnu fer það ekki að kaupa nýjan bíl. Sömu lögmál gilda um alla atvinnuvegi.“

Þessi ótrúlega lýsing er sönn úttekt á stefnunni sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur fylgt gagnvart íslenskum sjávarútvegi. Jóhanna sjálf hefur margsinnis talað af meiri óvild í garð útgerðarmanna en nokkur forsætisráðherra á undan henni.

Það er fagnaðarefni að allar tilraunir ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms J. til að eyðileggja kvótakerfið hafa misheppnast.