15.4.2013 22:17

Mánudagur 15. 04 13

Í Bíó Paradís er myndin Hanna Arendt (f. 1906 d.1975) sýnd um þessar mundir. Arendt var þýskur gyðingur og heimspekingur eða stjórnmálakenningasmiður eins og sagði sjálf. Hún flúði til Bandaríkjanna 1941 með móður sinni og eiginmanni. Myndin gerist þar um 20 árum síðar þegar Arendt tók að sér að rita um réttarhöldin yfir Adolf Eichmann (árið 1961) fyrir New Yorker.

Enginn annar var í salnum þegar ég sá myndina sem sannar hve virðingarverð starfsemi er rekin í Bíó Paradís. Margarethe von Trotta er leikstjóri hinnar áhrifamiklu myndar sem hefur hlotið lof gagnrýnenda og á erindi til samtímans þar sem „the banality of evil“ setur sterkan svip á mannleg samskipti. Arendt notar þetta hugtak til að lýsa því að Eichmann hafi ekki verið gyðingahatari heldur embættismaður sem fór að fyrirmælum eins og viljalaust verkfæri sem sinnti störfum í þágu hins illa. Síðar hefur komið í ljós að hún lét blekkjast af framkomu Eichmanns í réttarsalnum í Jerúsalem. Hann var eindreginn gyðingahatari fyrir utan að vinna illvirki eins og hvert annað starf.

Greinaflokkur Arendt í New Yorker vakti mikið uppnám og var hún sökuð um að taka málstað Eichmanns og gagnrýna forystumenn gyðinga á stríðsárunum. Að óathugðu máli hefði mátt ætla að flókin deila um afstöðu Arendt til Eichmann-réttarhaldanna hæfði ekki sem efni í kvikmynd. Sjón er sögu ríkari og brugðið er upp forvitnilegri mynd af lífi menntamanna í New York á sjötta áratugnum. Mary McCarthy rithöfundur var nánasta vinkona Arendt og kemur við sögu í myndinni. Hún aðhylltist kommúnisma og ég las einhvers staðar að hún hefði verið svo lygin að ekki væri einu sinni unnt að trúa orðinu „og“ í texta eftir hana.

Hanna Arendt hafði mikil áhrif með bókum sínum um stjórnmálakenningar. Rit hennar snerust um eðli valds, stjórnmál, áhrifamátt og alræðisstefnu. Í fyrsta meginriti hennar The Origins of Totalitarianism (1951) rekur hún rætur stalínisma og nasisma til gyðingahaturs og heimsvaldastefnu. Vinstrisinnar beittu sér gegn bókinni þar sem höfundurinn segði sambærilega harðstjórn einkenna þessar hreyfingar, kommúnista og nasista.