23.4.2013 22:50

Þriðjudagur 23. 04. 13

Enn ein könnunin um afstöðu þjóðarinnar til ESB-aðildar var birt í dag og sýndi enn á ný að meirihlutinn er á móti aðild. Rúmur fjórðungur þeirra sem tók afstöðu var mjög (11,4)  eða frekar (16,2) fylgjandi inngöngu í sambandið. Tuttugu prósent  sögðust hlutlaus en rúmur helmingur sagðist frekar (20,5) eða mjög (31,7) mótfallinn inngöngu  segir á ruv.is. Þar kemur jafnframt fram að 52,7% vilja halda áfram viðræðunum. 64% þeirra sem eru mótfallnir ESB aðild vilja hætta viðræðum. Aðrir vilja halda áfram eða taka ekki afstöðu. Á ruv.is segir:

„Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, segir  skýringuna á því að hluti andstæðinga Evrópusambandsaðildar vilji klára aðildarviðræðurnar vera mögulega þá að menn vilji ljúka langdregnu máli sem hafi kostað tíma og fjármuni. „Menn gætu líka talið að það væri eina leiðin að ljúka málinu að þjóðin fengi að greiða atkvæði um samning. Margir þeirra væru nokkuð öruggir í sinni sök sjálfsagt um það að þjóðin myndi hafna samningnum að minnsta kosti ef gengið yrði til atkvæða á næstu misserum og líta svoleiðis á að það sé farsælasta ferlið í málinu.““

Þessi skýring Rúnars er rökrétt. Í skýringunni er hins vegar lýst óskhyggju. Ágreiningi um ESB lýkur ekki hér frekar en annars staðar hvort sem aðild yrði felld eða samþykkt. Þetta er mál sem sífellt er til umræðu í Evrópulöndum hvort sem þau eru í ESB eða ekki. Nú hefur evru-vandinn orðið til að ýta undir deilur milli ríkja og valda klofningi innan ríkja.

Í tíð þeirrar stjórnar sem nú situr er deilt um ESB af því að aðild er á dagskrá. Í stjórn sem tekur við að kosningum loknum verður deilt um ESB af því að aðild verður ekki á dagskrá. Mestu skiptir að stjórnvöld vinni að sátt um tengslin við ESB án þess að yfirráðum þjóðarinnar í fiskimálum sé fórnað eða vegið að íslenskum landbúnaði. Það er best gert með aðild að EES-samningnum. Hann veitir varanlega undanþágu af hálfu á báðum þessum sviðum. Betri niðurstaða næðist ekki í aðildarviðræðunum.