7.4.2013 22:50

Sunnudagur 07. 04. 13

Í þættinum Höllinni er orðið spindoktor íslenskað með orðinu „ráðasmiður“ í stað þess að tala um spunaliða eða eitthvað í þá áttina. Minnt var á hve orðið „ráðasmiður“ er fráleitt í þessu samhengi í þættinum Ferðalok sem sýndur var næst á eftir Höllinni. Í Ferðalokum var fjallað um Njálu og einn hinna fróðu viðmælanda kallaði Njál „ráðasmið“. Þeir sem ekki vissu betur en fylgdust með Höllinni gætu haldið að Njáll á Bergþórshvoli hinn forvitri lögspekingur hefði verið eins og hver annar spindoktor. Hverjum skyldi hafa hugkvæmst að kalla spunaliða ráðasmið?

Í fréttum ríkisútvarpsins í dag var sagt frá ákvörðun Þingvallanefndar um að banna veiðar að næturlagi í landi þjóðgarðsins við Þingvallavatn. Fulltrúi stangveiðimanna mótmælti. Hvenær kemur að því að formaður Þingvallanefndar skýrir opinberlega frá því hvort hverjum og einum sé heimilt að koma með eigin fána og flagga á Lögbergi? Helsta skylda nefndarinnar er standa vörð um virðingu þinghelginnar á Þingvöllum og þar er Lögberg þungamiðjan.