Þriðjudagur, 20. 07. 04
Ríkisstjórnin kom saman til fundar klukkan 09.30. Það dróst tæpan hálftíma að fundur hæfist, allir ráðherrar sátu fundinn fyrir utan Halldór Ásgrímsson, en hann var austur á Höfn í Hornafirði að undirbúa útför móður sinnar miðvikudaginn 21. júlí. Davíð sagði við blaðamenn sem komu inn í ríkisstjórnarherbergið, þegar fundur var að hefjast, að hann hefði tafist vegna frágangs á textum.
Niðurstaða ríkisstjórnarfundarins var, að beðið skyldi eftir niðurstöðu fundar allsherjarnefndar síðar um daginn, en að loknum þeim fundi mundi afstaða stjórnarflokkanna liggja fyrir. Jafnframt var ákveðið að óska eftir fundi þingflokka klukkan 16.00 þennan dag.
Bæði Morgunblaðið og Fréttablaðið voru með fréttir um það á forsíðu þennan dag, að fjölmiðlalögin yrðu dregin til baka. Morgunblaðið taldi jafnframt, að flutt yrði þingsályktunartillaga um endurskoðun á I. og II. kafla stjórnarskrárinnar.
Á þingflokksfundi okkar sjálfstæðismanna gerði Bjarni Benediktsson, formaður allsherjarnefndar, grein fyrir niðurstöðu hennar og afturköllun fjölmiðlalaganna nema að því er varðar útvarpsréttarnefnd. Var góð samstaða um málið í þingflokknum. Í áliti nefndarinnar er rætt um nauðsyn þess að endurskoða stjórnarskrána en ekki var flutt sérstök þingsályktunartillaga um málið.
Ég settist við að rita pistil á vefsíðu mína við heimkomuna af þingflokksfundinum. Þar lét ég þess getið, að yrði stjórnarskránni breytt myndi forseti Íslands ekki hafa synjunarvald um það efni. Guðmundur Magnússon, blaðamaður á Fréttablaðinu, nefndi þetta sérstaklega á vefsíðu sinni og síðan í blaðinu sjálfu, þótti þetta athyglisverður punktur. Síðar sagði hann á síðunni og í blaðinu, að þessa túlkun á stjórnarskránni væri að finna hjá föður mínum í grein hans um lögkjör forseta en Ólafur Jóhannesson og Gunnar G. Schram teldu þessa túlkun hæpna. Taldi Guðmundur þetta boða nýja deilu lögspekinga.