26.11.2012 21:50

Mánudagur 26. 11. 12

Það er ótrúlegt að lesa nöldrið í óvildarmönnum Sjálfstæðisflokksins þegar þeir fjalla um hið velheppnaða prófkjör flokksins í Reykjavík laugardaginn 24. nóvember.

Óli Björn Kárason vakti athygli á rangfærslum stjórnmálafræðings við Háskólann á Akureyri um þátttöku í prófkjörinu. Hún er síst verri en áður. Yfirlýsingar Grétars Þórs Eyþórssonar kennara við HA um prófkjör sjálfstæðismanna og forval VG virðast hafa verið gefnar að óathuguðu máli. Hér má sjá grein Óla Björns.

Það er ekkert einstakt við að þingmaður færi sig af lista utan af landi til Reykjavíkur. Að Björn Valur Gíslason skuli hafa gert það skýrir ekki afhroð hans í forvali VG í Reykjavík eins og Grétar Þór vildi gera.

Skoðanir Björns Vals eða framganga höfða einfaldlega ekki til kjósenda. Eftir að hann varð formaður fjárlaganefndar alþingis lætur hann eins og ekkert sé honum og stórkallalegum yfirlýsingum hans óviðkomandi. Þá snerist hann á sínum tíma öndverður við skoðunum Katrínar Jakobsdóttur og Svandísar Svavarsdóttur um að eðlilegt væri að endurskoða forsendur ESB-viðræðnanna vegna þess hve þær hefðu dregist á langinn og ástandið innan ESB væri allt annað nú en 2009. Meira að segja Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar alþingis, var mildari í garð ESB-sjónarmiða VG-ráðherranna tveggja en Björn Valur. Í forvalinu fékk Árni Þór mun meira fylgi en Björn Valur.

Ókum norðan úr Húnavatnssýslu í dag í fegursta veðri. Íbúar fyrir norðan sögðu að við hefðum verið heppin um helgina því að undanfarandi helgar hefðu einkennst af vondu veðri og ófærð.