22.12.2012 18:50

Laugardagur 22. 12. 12.


Mario Monti, forsætisráðherra Ítalíu, baðst lausnar fyrir sig og ríkisstjórn sína í dag. Stjórnin situr sem starfsstjórn undir forsæti hans fram að kosningum. Monti baðst lausnar af því að hann naut ekki lengur stuðnings meirihluta ítalska þingsins. Fréttastofa ríkisútvarpsins sagði réttilega frá lausnarbeiðninni og að við tæki starfsstjórn í fréttatímum fram eftir degi en undir kvöld rugluðust menn í ríminu á fréttastofunni og sögðu að Monti hefði beðist lausnar fyrir sig og „starfsstjórn“ sína. Þetta minnir á þegar fréttamenn ríkisútvarpsins rugluðust á kjörgengi manns og töluðu um það í staðinn fyrir kosningarétt mannsins, kjörgengi þýðir að menn séu hæfir til að bjóða sig fram, kosningaréttur að þeir hafi rétt til að kjósa. Starfsstjórn er stjórn sem beðist hefur lausnar en situr áfram að ósk forseta eins og nú á Ítalíu. Starfsstjórn fer frá völdum eftir að ný stjórn með pólitískt umboð kemur til sögunnar.

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, sagði í kvöldfréttum ríkisútvarpsins að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefði oft hangið á horriminni en í gærkvöldi hefði hún breyst í minnihlutastjórn þegar hún gat ekki tryggt stjórnarfrumvörpum framgang á þingi.

Þessi kenning prófessorsins rennir enn stoðum undir þá kröfu að alþingi verði rofið strax og gengið til kosninga. Ríkisstjórn sem stendur jafnilla og þessi stjórn Jóhönnu verður skaðlegri með hverjum degi sem líður og óhjákvæmilegt er að því fylgi að tekið sé af skarið um að ganga strax til kosninga.

Furðulegt er að allir flokkar skuli standa að framlengingu gjaldeyrishafta og að framkvæmd þeirra verði í höndum seðlabankans. Hver eru rökin? Að seðlabankinn hafi staðið sig ofurvel við framkvæmdina? Höftin áttu að vera í 10 mánuði, nú stefnir í að ekki verði einu sinni tekist á um þau og afnám þeirra í komandi kosningabaráttu. Samtrygging stjórnmálamanna í þágu hafta og einræðislegrar framkvæmdar þeirra lofar ekki góðu.

 

tdráttur