23.12.2012 23:00

Sunnudagur 23. 12. 12.

Sunnudagur hæfir Þorláksmessu vel. Aðdragandi jólanna er almennt ofsafenginn, Þorláksmessa á sunnudegi dregur úr spennunni þótt verslanir séu opnar og margir vinni langan dag. Látið er sem verslun gangi vel fyrir jól að þessu sinni en þeir sem standa í eldlínunni segja að þess sjáist greinileg merki að fólk haldi meira að sér höndum en áður.

Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, tók að láta að sér kveða í netheimum fyrir nokkrum mánuðum og gerðist baráttumaður í þágu ríkisstjórnar Samfylkingar og vinstri-grænna. Hann segist þó hvorki vera í Samfylkingunni né vinstri sinnaður.

Af mörgu undarlegu sem Stefán hefur skrifað tel ég að pistill sem hann birti í dag á Eyjunni í dag um Hörpuna og ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. sé sá skrýtnasti.

Stefán segir frá för sinni á klassíska jólatónleika Frostrósa í Hörpu og þótti honum húsið sjálft „ævintýri“ þar sem kristallaðist „saga þjóðarinnar frá ræningjatíma frjálshyggjunnar til upprisunnar eftir hrunið“.  Hann segir að „leiðtogar víxlaranna“ hafi viljað „byggja monthús fyrir sig og hyski sitt, fyrir lánsfé eins og allt annað sem þeir komu nálægt“. Almenningur hafi kallað á „Jóskubusku og Steinbrjót til forystu í endurreisnarstjórn“. Þau hafi ekki viljað láta húsið standa „sem minnisvarða um hégóma, græðgi og heimsku“  heldur „ákveðið að klára höllina sem menningarhús íslenskrar tónlistar [...] Harpan reynist vera eitt dýrasta djásnið í krúnu ríkisstjórnarinnar.“

Þessi sögufölsun er með ólíkindum en því miður í samræmi við annað sem Stefán skrifar þegar hann tekur sér fyrir hendur að verja Jóhönnu Sigurðardóttur og hyski hennar. Þau Jóhanna og Steingrímur J. áttu alls engan þátt í að ráðist var í smíði Hörpunnar. Það voru allt aðrir sem tóku ákvarðanir um það og alls ekki hefði verið ákveðið að ljúka við að reisa húsið eftir hrun ef Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi borgarstjóri, hefði ekki átt hlut að máli.

Nú undir lok stjórnartíma „Jóskubusku og Steinbrjóts“ taka málsvarar þeirra og spunaliðar að skreyta þau með stolnum fjöðrum af því að ekkert af því sem þau hafa sjálf lagt af mörkum er þess eðlis að unnt sé að flagga því sem tákni um markverðan, varanlegan árangur.

Fyrir þá sem sækja tónleika í Eldborg skiptir mestu að frá því á fyrsta stigi ákvarðana um Hörpu var krafist 100% hljómgæða og þau heilla alla sem koma í salinn sem flytjendur eða áheyrendur. Jóhanna og Steingrímur J. áttu engan hlut að neinu sem gerir Hörpu að einstöku tónlistarhúsi.