Föstudagur 23. 11. 12
Það er frábært framtak hjá Elínu Hirst, Kjartani Gunnarssyni og þeim sem unnu með þeim að heimildarmyndinni um stofnfrumurnar að kynna þær og mikið gildi þeirra fyrir almenningi á þann hátt sem gert er í myndinni. Hún er í senn fræðandi og áhrifamikil.
Íslendingar eru fordómalausir í samanburði við aðrar þjóðir í þessu efni. Íslensk mynd um stofnfrumur á erindi til fleiri en áhorfenda hér til að opna augu sem flestra fyrir gildi þess að nýta þessa tækni til að sigrast á sjúkdómum sem til þessa hafa verið taldir ólæknandi. Myndin sýnir að það er unnt og fékk Elín hugrakka einstaklinga til að segja sögu sína og lýsa eigin reynslu.
Á morgun er prófkjör sjálfstæðismanna í Reykjavík. Ég hef á öðrum vettvangi lýst skoðun minni á nauðsyn endurnýjunar. Tækifæri til hennar gefst í þessu prófkjöri. Dugnað stjórnmálamanna má mæla á ýmsan hátt. Ég tel mestu skipta að enginn efist um meginskoðanir þeirra og hvaða aðferðum þeir beita við úrlausn mála.
Lítið hald reynist í mönnum sem haga sér eins og vindurinn blæs og hengja sig á það sem þeir telja helst til þess fallið að vekja athygli á hverjum tíma án þess að því sé fylgt eftir með öðru en upphrópunum. Jóhanna Sigurðardóttir starfaði þannig í stjórnarandstöðu.Hún var aldrei til friðs innan eigin flokks og þegar hún komst á toppinn hlaut íslenska þjóðin forsætisráðherra án annars markmiðs en að gera stjórnarandstöðunni lífið leitt. Jóhanna breytti í raun ekki um takt.
Rætt er um það sem dugnað að elta stjórnarherra með sífelldum fyrirspurnum. Vissulega er góðra gjalda vert að afhjúpa það sem miður fer og hér skiptir atbeini stjórnmálamanna meiru í því efni en víða annars staðar vegna þess hvernig fjölmiðlun er háttað. Að lokum skiptir þó miklu meira máli að vekja athygli á brotalömum í stefnu andstæðinga í stjórnmálum og leggja fram heildstæða stefnu sem vekur meiri tiltrú en til dæmis stjórnarherrarnir fylgja. Ná að setja fram skoðanir sínar á þann hátt að vitað sé fyrir hvað menn standa og höfða með því til almennings.
Í framboði í prófkjöri sjálfstæðismanna er fólk sem ég tel fært um að móta og fylgja fram stefnu flokksins af meiri þunga en gert hefur verið. Ég vona að það nái allt kjöri.